139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

sjálfbærar samgöngur.

68. mál
[17:01]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessar umræður um sjálfbærar samgöngur og geri ekki lítið úr því að við þurfum að horfa til framtíðar í þeim efnum. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir að vekja máls á því hér.

Mig langar líka að ræða um lífsnauðsynlegar samgöngur. Þar á ég við þá sem búa í samfélögum eins og í Hrísey, eins og í Grímsey, eins og á Mjóafirði, eins og í Vestmannaeyjum, í Flatey og jafnvel á fleiri stöðum þar sem enginn vegur liggur að. Við höfum þá stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að búið er að skera mjög niður til þessa málaflokks sem er lífsnauðsynlegar samgöngur fyrir íbúa á þessum svæðum.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að leiðrétta þann kúrs þannig að fólk þurfi ekki að borga allt of hátt gjald á tímum kreppu til að komast til og frá heimili sínu og hvort hann hyggist koma í veg fyrir það að frekari niðurskurður verði til þessa málaflokks. (Forseti hringir.) Eins og ég hef sagt hér er um lífsnauðsynlegar samgöngur að ræða og ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að þetta óréttlæti verði jafnað. (Forseti hringir.)