139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

fjarskipti.

136. mál
[15:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fylgja nokkuð eftir þessu máli sem hv. 1. þingmaður Norðvesturkjördæmis gerði að umtalsefni, þ.e. stöðuna sem uppi er í fjarskiptamálum víða á landsbyggðinni. Ég ætla fyrst og fremst að nefna símasambandið sjálft. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hefur gert ágætlega grein fyrir öðrum þáttum.

Tvennt um símasambandið. Annars vegar er búið að leggja heilmikla fjármuni í að byggja upp GSM-símasamband víða um land og hefur tekist prýðilega eins og við vitum. En það eru hins vegar gloppur í þessu símasambandi á nokkrum stöðum, bæði á þjóðveginum og einnig býr fólk víða upp til sveita við stopult GSM-samband. Það er einfaldlega þannig, þó það hafi ekki verið ætlunin í upphafi, að menn líta orðið á GSM-sambandið sem eins konar öryggistæki. Menn hafa kannski ekki marga aðra kosti heldur. Þess vegna er mjög mikilvægt að reyna að stoppa í göt á sambandinu.

Í annan stað var fyrr á þessu ári hið svokallaða NMT-kerfi lagt niður. Ég spurði fyrrverandi hæstv. ráðherra um það mál og hvernig brugðist yrði við því. Í svari hæstv. ráðherra kom fram að kallað yrði eftir upplýsingum hjá Póst- og fjarskiptastofnun um hvað þyrfti að gera til að stoppa upp í götin sem mynduðust við það að NMT-kerfið væri lagt niður.

Spurningin til hæstv. ráðherra er þá þessi: Í frumvarpinu sem nú er lagt fram er gert ráð fyrir því að horfið sé frá því að leggja fram fjarskiptaáætlanir en í stað þess settar inn samskiptaáætlanir. Má þess vænta í nýrri samskiptaáætlun, sem verður væntanlega lögð fram innan tíðar, að fram komi skýr stefnumótun og tryggðir fjármunir til að hægt sé annars vegar að stoppa upp í gloppurnar í GSM-sambandinu og í öðru lagi að bregðast við þeirri stöðu sem komin er upp við það að NMT-kerfið er ekki lengur í notkun?