139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:34]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sá hv. þingmaður sem ég á hér orðastað við talar mjög mikið um lýðræði, talar mikið um að hann sé fulltrúi þjóðarinnar á þingi og það má stundum á þingmanninum skilja að við hin séum ekki fulltrúar þjóðarinnar. Nú finnst mér þingmaðurinn vera að gera sig sekan um alvarlegan hlut sem er sá að hann vegur hér með orðum sínum hreinlega að hornsteinum lýðræðisins, sem eru jú málfrelsi og tillöguflutningur. Vegna þess að á hvaða leið værum við ef við hefðum ekki réttinn til að leggja fram tillögur og jafnvel þótt þær kynnu að valda deilum. Ég leyfi mér að halda því fram að margar af þeim tillögum og hugmyndum sem hafa fært okkur í gegnum heimssöguna mestar framfarir og mesta velmegun hafa kannski í upphafi valdið deilum. Þar er hægt að telja upp fjölda mörg atriði.

Ég ítreka að þetta er okkar leið. (Forseti hringir.) Við erum tilbúin til að ræða þær (Forseti hringir.) en við drögum þær ekki til baka (Forseti hringir.) af ótta við það að þær falli ekki í (Forseti hringir.) kramið.