139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl.

87. mál
[17:36]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir ágæta framsögu á frumvarpi til laga um breytingar á lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, lögum um Landsvirkjun, lögum um samvinnufélög og lögum um sameignarfélög.

Ég vil í upphafi máls míns lýsa því, þó að ég sé ekki flutningsmaður að frumvarpinu sem um ræðir, að ég er sammála efnisatriðunum sem koma fram. Eins og hv. þingmaður benti á áðan er verið að gæta samræmis við löggjöfina sem Alþingi samþykkti í fyrra er varðaði stöðu kvenna í stjórnum og ráðum fyrirtækja. Hér er lagt til að hlutur kvenna og karla í sameignarfélögum eða samvinnufélögum árið 2013 verði ekki undir 40%.

Þetta mál, eins og hv. þingmaður nefndi, olli deilum í þinginu og var farið allítarlega yfir það á sínum tíma. Nú er það svo að í gildi er sáttmáli og samningur hjá Samtökum atvinnulífsins við konur. Ég man að konur úr öllum stjórnmálaflokkum fóru á fund aðila vinnumarkaðarins og forsvarsmanna atvinnulífsins og skrifuðu undir sáttmála um að þetta ár yrði hlutfallið komið í þetta. Þess vegna fannst okkur mörgum í þinginu það eðlilegt framhald, þ.e. ef mönnum er á annað borð alvara með að ná þessu markmiði árið 2013, að við mundum lögfesta samkomulagið þannig að samkvæmt lögum yrði staða kynjanna í stjórnum og ráðum fyrirtækja árið 2013, nánar tiltekið 1. september, orðin jöfn.

Nú er það svo að þetta var ekki gert með skömmum fyrirvara, þetta var gert fyrir flestalla aðalfundi fyrirtækja í fyrra. Þau hafa þetta ár og næsta ár þannig að það er heillangur aðlögunartími sem atvinnulífið hefur til þess að snúa þessari þróun við. Það er nefnilega óþolandi að horfa upp á það, og ef við skoðum tölur sem Jafnréttisstofa hefur birt, að árið 2005 var hlutfall stjórnarkvenna í stjórnum íslenskra fyrirtækja 22%. Árið 2006 voru það 22% og árið 2007 voru það 22%. Ekkert miðaði í þá átt á þessum árum að jafna vægi kynjanna í stjórnum og ráðum fyrirtækja.

Maður veltir því fyrir sér af hverju svo er. Er það vegna þess að íslenskar konur séu verr menntaðar en íslenskir karlmenn? Nei, og ef eitthvað er hafa þær siglt fram úr á þeim vettvangi, a.m.k. hvað varðar aðsókn að háskólanámi. Og ekki ætla ég að efast um greindina, að það sé einhver stórkostlegur munur á greind kynjanna, ég trúi ekki að nokkur maður ætli að fullyrða það, þannig að það er pottur brotinn þegar kemur að yfirstjórn atvinnulífsins í landinu, að kynjahlutföllin skuli vera svona ójöfn.

Ég skal játa það að á árunum 2005 og 2006 var ég ekki talsmaður þess hvorki innan míns flokks eða innan atvinnulífsins að menn ættu að setja kvóta er varðaði ábyrgðarstörf. Þegar maður fer yfir þróunina og hversu sorglega lítið hefur áunnist í því að jafna hlutföllin þá skipti ég einfaldlega um skoðun. Ég tel að Alþingi Íslendinga þurfi að hafa frumkvæði í jafnréttisátt þegar kemur að þessum málum rétt eins og þegar við settum fæðingar- og foreldraorlofið á í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, þá var Páll Pétursson hæstv. félagsmálaráðherra. Hann lagði upp með það þegar lengingin varð að settur yrði kvóti á hvort kyn, þrír mánuðir á karl og þrír mánuðir á konu og þrír sameiginlegir mánuðir sem foreldrar gátu skipt með sér, til þess að karlar hefðu tækifæri og tök á að geta verið með börnum sínum á fyrstu árum þeirra. Það var ekki óumdeilt.

Ég man eftir því að Heimdallur og ungir sjálfstæðismenn voru gjörsamlega á móti þessu og andæfðu þessum áformum. Þeir sögðu að hér væri um ákveðna forræðishyggju að ræða og fleira í þeim efnum. En við höfðum betur, þorri þingsins, gegn öflunum sem töluðu fyrir þessum rökum og útkoman er eftir því. Við höfum eina framsæknustu löggjöf á sviði fæðingarorlofsmála í heiminum og nágrannalönd okkar öfunda okkur af þessari löggjöf.

Ég styð þetta eindregið. Ég tel að það þurfi að breyta hugarfari í landinu og vonandi eftir 20 ár þurfum við ekki að ræða jafnréttismálin út frá kynjahlutföllum. Vonandi finnst mönnum það sjálfsagt að það sé góður ballans þegar kemur að setum í nefndum og ráðum að það þurfi ekki einu sinni að ræða það. Vonandi horfum við ekki upp á að í stjórnum fyrirtækja séu bara karlar eða bara konur eða að á Alþingi Íslendinga sé yfirgnæfandi hluti karlar og fáar konur. Ég vona að þetta sé veruleikinn sem við verðum að kveðja. Hins vegar hefur þróunin hjá atvinnulífinu verið sorglega lítil á undangengnum árum. Þess vegna rökstyð ég það að við áttum að fara í þessa breytingu og efnislega styð ég frumvarpið sem hv. þingmaður hefur lagt fram.

Ég minni líka á að innan flokks míns, Framsóknarflokksins, er það bundið í lög að hlutfall kynjanna skuli ekki vera undir 40% þegar kemur að vali á framboðslista. Sú löggjöf hefur gefist að mörgu leyti vel og ég hef fundið það í félagsstarfi innan Framsóknarflokksins að þar hefur hugsunarhátturinn að miklu leyti breyst síðustu tíu, tólf árin. Nú reynir á þessi lög í undantekningartilfellum vegna þess að þegar menn kjósa í trúnaðarráð innan flokksins og á lista er það yfirleitt reglan að hlutfall kynjanna er með þessum hætti, annað eru undantekningartilfelli.

Ég velti því líka fyrir mér hver skilaboðin eru frá þinginu og þeim sem ekki eru sammála því að viðhafa þetta vinnulag, þ.e. að beita löggjöf í þessu skyni, sem var umdeilt. Ég velti fyrir mér skilaboðum til ungra stúlkna sem eru að mennta sig í háskólum og framhaldsskólum og hafa mikinn metnað fyrir sína hönd í framtíðinni, þegar við horfum á hversu sorglega lítið hefur þokast í átt að jafnrétti í íslensku atvinnulífi. Mér finnst nauðsynlegt að stjórnmálamenn sendi og setji fram skýra framtíðarsýn er varðar þennan mikilvæga málaflokk því að endingu snýr þetta líka að sjálfsmynd þeirra sem upplifa sig í minni hluta og eru beittar órétti.

Það er annað er snertir umræðuna um jafnréttismálin og við ræddum á afmæli Jafnréttisstofu á Akureyri nú fyrr í haust þegar Jafnréttisstofa fagnaði tíu ára afmæli sínu, það var hvernig umræðan um jafnréttismál er í þinginu. Ég get að mörgu leyti tekið undir það að hún er dálítið takmörkuð því eins og ég hef sagt hér að framan þá hef ég nær eingöngu talað um hlutfall kvenna og karla í stjórnum og ráðum og nefndum á vegum ríkisins. Það er ekki nema lítill hluti kvenna sem sinnir þessum embættum. Mér finnst að við þurfum að dýpka umræðuna í þeim efnum að við þurfum að ræða um stöðu kynjanna annars staðar í samfélaginu líka og þar hallar á mörgum sviðum á konur og reyndar einnig á karlmenn. Ég tel að við þurfum að útvíkka meira þessa umræðu. Við komum fram með fyrirspurnir skipti eftir skipti um hlutföll í æðstu ráðum og nefndum en við gleymum að fara um samfélagið og skoða stöðu kynjanna er snertir þennan mikilvæga málaflokk.

Það eru svo sem ekkert margir áratugir síðan karlmenn voru í yfirgnæfandi meiri hluta í kennarastétt. Við þurfum ekkert að fara marga áratugi aftur í tímann, en í dag eru 80% kennara við skóla landsins konur. Ég rakst á dögunum á grein eftir Runólf Ágústsson sem nefnist „Peningana eða börnin?“ Þar segir, með leyfi forseta:

„Yfir 95% leikskólakennara hérlendis eru konur. Um 80% kennara við grunnskóla landsins eru konur. Margir ungir drengir búa hjá mæðrum sínum án daglegrar umgengni við feður sína eða aðra karlmenn. Konur sjá því um uppeldi, mótun og menntun sona okkar bæði á heimili og í skólunum.“

Síðan heldur höfundur áfram, með leyfi forseta:

„Er ekki kominn tími til að stokka upp þetta kynskipta samfélag þar sem karlar hugsa um peninga og konur börn? Flest virðist benda til þess að slíkt muni skila okkur auknum árangri á báðum sviðum.“

Ég tek undir með höfundi greinarinnar þegar kemur að hugmyndafræði sem þessari. Ég vil, eins og ég sagði áðan, fagna því að þetta sé komið fram. Þetta er til samræmis við það sem við ákváðum fyrir ári síðan og sé að tveir þingmenn Framsóknarflokksins eru meðflutningsmenn á málinu. Ég vil vekja athygli á því að það er ekki oft sem við ræðum um jafnréttismál hér í þinginu og engin kona tekur þátt í umræðunni. Reyndar finnst mér málið af þeirri stærðargráðu að það er málinu varla til sóma að einungis tveir þingmenn skuli halda ræðu um þetta mikilvæga frumvarp. Ég held að þetta sé langhlaup, því miður. Vonandi munum við ná fram auknu jafnrétti fyrir konur og karla á næstu árum. Við þurfum líka að taka umræðuna upp á forsendum karla, að við náum auknum jöfnuði í samfélaginu enda hlýtur það að vera takmark okkar allra. Ég þakka hv. flutningsmönnum fyrir að hafa lagt þetta fram.