139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[14:39]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Hvað varðar seinna atriðið er ég sammála. Það var lagt af stað í þennan leiðangur að vissu leyti á fölskum forsendum.

Hvað varðar fyrra atriðið sem hann nefndi, um stjórnarskrána, þá er ég sammála því að það þarf að breyta stjórnarskránni og það verk er fyrir höndum. Þjóðaratkvæðagreiðslur verða að vera bindandi, finnst mér, og sannfæring mín liggur þar að vilji þjóðarinnar sem hún sýnir væntanlega í þjóðaratkvæðagreiðslunni skiptir meira máli en mín persónulega skoðun. Þess vegna mun ég þegar kemur að því, ef ég sit í þessum stól sem við vitum auðvitað ekkert um, ýta á já- eða nei-takkann eftir atvikum, eftir ráðgjöf þjóðarinnar eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Ég vona sannarlega að það viðhorf sé ríkjandi meðal þingmanna.