139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins varðandi afstöðu utanríkisráðherra og formanns utanríkismálanefndar: Þeir verða að svara þessu sjálfir en í það minnsta er nokkuð ljóst að menn leggja ólíkan skilning í þetta, annars vegar embættismenn hjá Evrópusambandinu og Stefan Füle, stækkunarstjóri sjálfur, og hins vegar íslensk stjórnvöld eða formaður utanríkismálanefndar og hæstv. utanríkisráðherra. Ég kann ekki skýringar á því nema kannski þær helstar að ég er ekki viss um að Evrópusambandið muni bjóða upp á neitt annað ferli í þessum efnum. Eðlilegast væri að láta reyna á þau erfiðu mál sem við teljum okkur þurfa undanþágur í, og eru skilgreind í nefndaráliti utanríkismálanefndar, og síðan færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Það held ég að sé ekki fjarri því sem margir héldu að væri að fara í gang. Það ferli sem nú er komið í gang er með allt öðrum hætti.

Hvað varðar veru sérlegs sendiherra ESB á norðurslóðum, sem var hér nýverið, held ég að það liggi ljóst fyrir að áhugi Evrópusambandsins á Íslandi snýr ekki hvað síst að því að styrkja stöðu sína hér á norðurslóðum. Ég hef verið í ágætu sambandi við einn Evrópuþingmann sem hefur haldið því sama fram. Hann fullyrðir við mig, þessi ágæti þingmaður, heitir Søren Søndergård og er Dani, að ljóst sé að Evrópusambandið muni ekki láta það gerast að Ísland segi nei. Þeir þurfi að styrkja stöðu sína á norðurslóðum, þeir þurfi að komast nær norðurslóðum, hér sé mikil orka, lega landsins skipti máli og fleira í þeim dúr.

Þetta kemur reyndar heim og saman við það sem kemur fram í skýrslu Thorvalds Stoltenbergs, um öryggismál á norðurhöfum, þar sem hann telur gríðarlega mikilvægt að menn fari að ræða um norðurslóðamálin því að á norðurslóðum sé framtíðarorkuforði Evrópusambandsins. Við skulum ekki gleyma því, (Forseti hringir.) við Íslendingar, að jafnvel þó að við glímum við ákveðna erfiðleika erum við auðlindarík þjóð og við eigum gríðarlega mikla möguleika, hvort sem við lítum í austur eða vestur.