139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

endurskipulagning á sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði.

[14:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að taka þetta mál upp og benda réttilega á að það skiptir gríðarlega miklu máli í allri umræðu um heilbrigðismál að við reynum að nýta sem best fjármunina, halda samt þeirri þjónustu sem möguleg er og að þjónustan sé veitt á réttu stigi.

Hv. þingmaður spyr hvaða vinna sé í gangi varðandi breytingar á þessu svokallaða tilvísanakerfi. Ég get upplýst að þann 2. mars 2010 skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra Álfheiður Ingadóttir nefnd til að leggja fram tillögur um hvernig unnt verði að efla stöðu heilsugæslunnar og tryggja að landsmenn geti búið við sem jafnastan kost í heilsufarslegum efnum.

Í skipunarbréfi nefndarinnar óskaði heilbrigðisráðherra eftir tillögum um á hvern hátt unnt væri að innleiða tilvísanaskyldu í heilbrigðisþjónustu. Einnig var þess farið á leit við nefndina að hún gerði tillögur um önnur atriði sem tengjast heilsugæslu, svo sem forvarnir, fræðslu, kennslu, heilsugæslu í skólum, barnalækningar, tannvernd, tannlæknaþjónustu og Læknavaktina. Nefndinni var upphaflega gert að skila tillögum sínum 1. júní á þessu ári en verkið reyndist hins vegar töluvert umfangsmeira en ráð var fyrir gert. Von mín er að tillögur nefndarinnar liggi fyrir í lok þessa mánaðar.

Nefndin kynnti sér sögu tilvísanaskyldu á Íslandi og jafnframt hvernig tilvísanaskyldu hefur verið beitt víða um lönd. Útfærsla tilvísanaskyldunnar er breytileg frá einu landi til annars. Þar ráða ferðinni jafnt fjárhagsleg markmið og aðgerðir sem hafa þann tilgang að tryggja sem mesta samfellu í þjónustu við sjúklinga. Víða eru dæmi um að ákveðnar sérgreinar séu undanþegnar tilvísanaskyldu og einnig kemur fyrir að boðnir séu tilteknir valkostir í sjúkratryggingum.

Ríkjandi efnahagsaðstæður hafa vakið upp umræðu um að taka í notkun tilvísanakerfi hér á landi eins og bent hefur verið á. Sú skoðun nýtur vaxandi fylgis að með slíku kerfi megi betur tryggja öllum þjóðfélagshópum góða heilbrigðisþjónustu og stuðla um leið að hagkvæmari rekstri.

Á tímum efnahagsþrenginga er mikilvægt að leita nýrra leiða til að tryggja réttlátari dreifingu á gögnum og gæðum heilbrigðisþjónustunnar svo koma megi í veg fyrir að þegnarnir búi við ójafna lífskosti í heilsufarslegum efnum. Í núverandi stöðu verður ekki komist hjá því að forgangsraða líkt og í öðrum opinberum rekstri. Nefndin skoðaði sérstaklega fyrirkomulag tilvísanaskyldu annars staðar á Norðurlöndunum.

Í Danmörku er fyrirkomulag sem er nokkuð frábrugðið því sem þekkist meðal annarra þjóða, þetta svonefnda valfrjálsa stýrikerfi. Í Danmörku felst munurinn aðallega í því að þegnunum er boðið upp á að tilheyra annaðhvort tryggingahópi 1 eða tryggingahópi 2. Íbúar í hópi 1 skrá sig hjá tilteknum heimilislækni og áður en þeir leita til sérgreinalæknis eða sjúkrahúss er þeim gert að framvísa tilvísun frá heimilislækni sínum. Til mótvægis fá þeir greiddan nær allan heilbrigðiskostnaðinn nema lyf en um þau gilda sérstakar reglur.

Íbúar í hópi 2 hafa hins vegar frjálst val um að leita til heimilislækna eða sérgreinalækna en þeir þurfa tilvísun til sjúkrahúss eins og aðrir. Þeim er gert að greiða að mestu sjálfir fyrir þá þjónustu sem þeir njóta hjá þessum læknum. Sjúkratryggingarnar greiða þó vissan kostnað fyrir hóp 2 eftir sama taxta og fyrir hóp 1. Aðeins 1–2% íbúanna hafa valið að tilheyra hópi 2 en 98–99% eru bundin tilteknum heimilislækni með aðild sinni að hópi 1.

Verði ákveðið að koma á tilvísanakerfi hefur einkum verið talað um að þrjár leiðir kæmu til greina, í fyrsta lagi innleiðing tilvísanaskyldu með engum eða fáum undantekningum þar sem heimilislæknir greinir og skipuleggur meðferð sjúklings eða vísar honum áfram á viðeigandi stað í heilbrigðiskerfinu.

Í öðru lagi mætti hugsa sér sveigjanlegt tilvísanakerfi sem næði til mismunandi fjölda sérgreina frá einum tíma til annars.

Í þriðja lagi mætti hugsa sér að taka upp valfrjálst stýrikerfi að danskri fyrirmynd. Uppbygging nýs skipulagskerfis, hverja leiðina sem menn velja, er ekki einfalt mál og þarfnast ítarlegrar útfærslu. Í stað tilvísanaskyldu eða jafnhliða henni væri mögulegt að taka upp eða gera tilraun til að stýra flæði sjúklinga með markvissari hætti frá einu þjónustustigi til annars. Slík stýring eða stjórnun mundi þá grundvallast á ákveðnum verklagsreglum eða tilmælum. Verklagsreglurnar gætu verið af ýmsum toga, svo sem varðandi innra starf, teymisvinnu og samskipti við aðrar stofnanir og þætti heilbrigðiskerfisins.

Í bráðabirgðaáliti heilsugæslunefndarinnar var velt upp þeim möguleika að taka upp sveigjanlega tilvísanaskyldu í stað almennrar tilvísanaskyldu. Allar breytingar í þessum efnum ráðast samt sem áður af því hversu langan tíma tekur að ráða bug á heimilislæknaskortinum og breyta grunnskipulagi heilbrigðisþjónustunnar. Efst á baugi hjá heimilislæknum er því að námsstöðum í heimilislækningum verði fjölgað og hefur verið rætt um að taka allt að 20 lækna árlega næstu árin inn í sérnám í heimilislækningum. Þetta er talin ein áhrifaríkasta leiðin til að draga úr læknaskorti og styrkja heilsugæsluna á komandi árum. Það er því erfitt að segja hversu langan tíma tæki að gera breytingar en ég hef valið að gera grein fyrir því (Forseti hringir.) hver staða vinnunnar er og hvaða valkostir eru í boði. Ég fæ kannski tækifæri í lokin til að ræða betur um kostnað sérfræðiþjónustunnar miðað við að fara í gegnum heilsugæslu.