139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

svör ráðherra við fyrirspurnum.

[11:17]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Auðvitað er hæstv. ráðherra í fullum rétti til þess að framkvæma þær breytingar sem hann kýs að gera á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni. En þá vill þannig til að ef þær breytingar eru ekki í samræmi við gildandi lög ber honum að leita heimildar Alþingis til að breyta þessum lögum. Það hefur hæstv. ráðherra ekki gert í þessu tilviki. Hann er borinn þeim þungu sökum að hann sé að fara á svig við lögin. Hann svarar engu um þetta mál, hann lætur ekki vinna lögfræðiálit, hann hefur hér bara uppi hrokafulla afstöðu.

Hæstv. ráðherra er ekki frekar en við hinir hafinn yfir lög. Hann sagði að það væri stefnumunur á stefnu ríkisstjórnarinnar og stefnu Sjálfstæðisflokksins. Það er rétt. Við teljum nefnilega gagnstætt því sem á við um hæstv. ráðherra að það eigi að fara að lögum. Þetta mál og þessi umræða snýst um það hvort hæstv. ráðherra fari að lögum, hvort hann hafi grennslast fyrir um það (Forseti hringir.) að hann hafi haft lagalega heimild. Það liggur núna fyrir að hann hefur ekki gert það. Hann fer sínu fram þrátt fyrir viðvaranir sem berast úr lögfræðiálitum. Hæstv. ráðherra er kominn út á mjög þunnan og afar hálan ís.