139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[16:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að hér er um að ræða viðbót og það er sannarlega ekki mikið svigrúm til frekari hækkana á sköttum í íslensku samfélagi. Þeir hafa verið leiðréttir til þess sem þeir voru fyrir góðærið og mikið meira rúm er nú ekki.

Auðlegðarskatturinn til að mynda er sannarlega tímabundin aðgerð í gegnum mestu erfiðleikana því að hann mun ekki í þessu formi, eftir að viðskipti verða vonandi aftur frjáls við útlönd, geta verið hér til langframa. Ég held að ef við skoðum þetta heildstætt, eins og hv. þingmaður kallar eftir, hljótum við að horfa til auðlindagjalda og auðvitað eigum við að taka miklu stærri hluta af þessu í auðlindagjöldum í staðinn fyrir að leggja það á heimilin og hin almennu fyrirtæki í landinu, því að skorturinn á auðlindasköttum er núna t.d. að valda mikilli framlegð í útflutningsatvinnugreinunum, óeðlilega mikilli framlegð í þeim, sem svo aftur kallar á kröfur um kauphækkanir (Forseti hringir.) frá þeim sem starfa í útflutningsgreinunum, sem aftur kallar á að hinir vilja líka fá hækkanir sem aftur (Forseti hringir.) skapar sama vítahringinn og skapaði hér verðbólgu árin sem við þekkjum af illu einu.