139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[18:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Um eitt erum við hæstv. fjármálaráðherra sammála, að taka ber þessa umræðu í heildarsamhengi hlutanna, þ.e. verkefnið er að loka fjárlagagatinu. Við höfum lagt fram tillögur um hvernig hægt er að gera það án þeirra aðgerða sem hér er verið að ræða um. Þegar við tölum um tekjuöflunarhliðina höfum við lagt áherslu á að skapa vöxt. Það hefur ekki hjálpað við sköpun nýrra starfa hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram í tengslum við málefni stóriðjunnar vegna gagnavera. Síðast í dag höfðu hagsmunaaðilar á því sviði samband við mig og sögðu að ríkisstjórnin væri enn þá að þvælast fyrir. Fjárfestingar í samstarfi við lífeyrissjóðina hafa tafist. Endurskipulagning fyrirtækjanna hefur líka tafist. Við vitum að meiri hluti þeirra fyrirtækja sem þurfa fjárhagslega endurskipulagningu bíða enn eftir úrlausn sinna mála. Sama á við um skuldavanda heimilanna. Svartsýni er áberandi hjá atvinnurekendum. Væntingavísitalan hefur sjaldan verið lægri. Stöðugleikasáttmálanum var í raun og veru sagt upp. Sátt um framtíð fiskveiðistjórnarkerfisins (Forseti hringir.) er í raun og veru engin vegna þess að þar er fullkomin óvissa þrátt fyrir að allir hafi lagt sitt af mörkum. Heildarstjórnun á stefnu efnahagsmála (Forseti hringir.) í landinu er í algeru uppnámi.