139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

tæki og búnaður á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

138. mál
[15:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir spyr hvað eigi að gera við tæki og búnað sem frjáls félagasamtök, einstaklingar og fyrirtæki hafa lagt til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og gefur sér þá forsendu að sjúkrasvið þessara stofnana verði nær lögð niður.

Því er til að svara að samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011 er áformaður verulegur niðurskurður á fjárveitingum til reksturs sjúkrasviða heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni en ekki er áformað að loka neinu þeirra. Það er í verkahring stjórnenda viðkomandi heilbrigðisstofnana að annast rekstur sinna stofnana og þar með að hafa umsjón með eignum þeirra. Þau tæki og búnaður sem stofnanir hafa fengið að gjöf á undanförnum árum verða nýtt áfram í viðkomandi heilbrigðisstofnun og engin áform eru um að flytja þau til annarra stofnana.

Þannig hljóðar formlegt svar mitt en ég vil taka undir það sem kemur fram í inngangi að þessu máli að frjáls félagasamtök, einstaklingar og fyrirtæki hafa gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki í uppbyggingu á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum á landinu öllu. Það er ekki bundið við minni staðina. Við eigum hér glæsilegan barnaspítala sem byggður var upp af samtökum sem komu þar að. Víða voru spítalar á sínum tíma bókstaflega stofnaðir af annaðhvort verkalýðsfélögum eða jafnvel fyrirtækjum. Við skulum alls ekki gera lítið úr þessum þáttum og vonandi verður þetta þannig áfram.

Ég tek undir það sem kom fram í svari við fyrri fyrirspurn að við þurfum auðvitað að koma umhverfi þessara frjálsu félagasamtaka í lagabúning þannig að það sé nokkuð á hreinu um hverja við erum að ræða og hvaða fyrirgreiðslu ríkið veitir á hverjum tíma. Sum af þessum samtökum fá síðan framlög í gegnum Alþingi til starfsemi sinnar. Það er auðvitað þannig líka að af mörgum þeim tækjum og þeim búnaði sem gefinn er er virðisaukaskatturinn felldur niður af því félögin gefa þennan búnað. Og er það mjög vel.

Svarið miðast einfaldlega við fjárlagafrumvarpið eins og það hefur verið lagt fram. Ég hef sjálfur tilkynnt að einhver endurskoðun verði á því frumvarpi þó að ég geti ekki greint frá þeim tillögum enda eru þær ekki að fullu unnar. Verulega stórt skref verður stigið til baka en óháð því hefur ekki staðið til á neinn hátt að færa til tæki og búnað eða flytja í burtu af þeim stofnunum sem hafa þegið slíkt að gjöf.