139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

olíuleit á Drekasvæði.

150. mál
[16:26]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Mér er ljúft og skylt að fara yfir stöðu mála, ég rak nefnilega líka augun í sömu frétt og hv. þingmaður og fannst hún afar áhugaverð.

Staða mála vegna olíuleitar á Drekasvæðinu er sú að það hefur verið tilkynnt um annað útboð rannsókna- og vinnsluleyfa á svæðinu. Það á að hefjast 1. ágúst á næsta ári og standa yfir í fjóra mánuði. Þessi tímasetning gerir það að verkum að aðilar sem hafa hug á að taka þátt í útboðinu geta nýtt sumarið fyrir útboðið til rannsókna á svæðinu og nýtist sá tími því umsækjendunum vel.

Af því að hv. þingmaður spurði um skattumhverfið er það rétt að það var gagnrýnt töluvert fyrir að vera heldur framþungt í samanburðinum við skattumhverfið í kringum okkur. Ég hef þess vegna lagt á það mjög mikla áherslu að við séum samkeppnishæf, sérstaklega þar sem það er ljóst að Norðmenn eru að fara að hreyfa sig á þessu svæði og eru lagðir af stað í þann leiðangur.

Núna er í gangi starfshópur á vegum fjármálaráðuneytisins við að yfirfara lögin um skattlagningu kolefnisvinnslu og hópurinn skoðar einkum þau atriði laganna sem hafa sætt mestri gagnrýni í kjölfar þessa fyrsta útboðs. Þess má vænta að tillögur til afmarkaðra breytinga á lögunum verði lagðar fram á yfirstandandi löggjafarþingi svo hægt verði að kynna væntanlegar breytingar í tíma fyrir útboðið sem ég nefndi áðan.

Að fenginni reynslu frá fyrsta útboði er að sama skapi fyrirhugað að leggja fram á yfirstandandi þingi frumvarp um tilteknar afmarkaðar breytingar á lögunum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis í tengslum við næsta útboð og von okkar er að við náum að gera okkar skattalöggjöf líkari þeirri sem er í nágrannalöndunum.

Líka var spurt um samstarf við Norðmenn. Við höfum átt mjög gott samstarf við þá og það er alltaf að aukast. Ég átti fund með olíumálaráðherra Noregs í maí sl. þar sem við innsigluðum það að við ætluðum að vinna að þessum málum hlið við hlið. Það eru fjölmargir þættir sem við eigum mikla hagsmuni undir að við störfum vel saman að, eins og í öryggismálum og öðru slíku. Þar er mikil vinna þegar hafin og hefur verið haldin vinnustofa millum bæði norskra og íslenskra embættismanna þar sem menn stíga sameiginleg skref í þessum efnum. Samstarfið er til staðar og er að dýpka ef eitthvað er.

Það hefur verið töluvert samstarf um rannsóknir á þessu svæði og nýverið lauk sameiginlegum rannsóknarleiðangri Árna Friðrikssonar á Drekasvæðinu þar sem safnað var kjarnasýnum úr yfirborði hafsbotnsins, bæði Íslands- og Noregsmegin við markalínuna. Leiðangurinn stóð yfir í tæpan mánuð núna í haust og neðsti hluti sýnanna var djúpfrystur og sendur til Noregs til greiningar á ummerkjum um olíu og gas, en megnið af kjörnunum verður síðan rannsakað af jarðfræðingum við Háskóla Íslands. Með mælingum á lífrænum efnum í dýpsta hluta kjarnans er hægt að sýna fram á hvort gas eða önnur kolvetni sem greinast í sýnunum hafa myndast við niðurbrot baktería á lífrænum leifum eða hvort um sé að ræða hitaummynduð kolvetni ættuð úr móðurbergi dýpra í jarðlögunum.

Í seinni hluta leiðangursins var stór hluti af Jan Mayen hryggnum kortlagður Noregsmegin við markalínuna en sá hluti leiðangursins er einvörðungu fjármagnaður af Norðmönnum. Hinn hlutinn var fjármagnaður að hluta til af Norðmönnum og hluta til af Orkustofnun. Þetta heppnaðist gríðarlega vel og það tókst að safna kjörnum frá einum 30 stöðum á svæðinu og rúmlega 13 þús. ferkílómetrar voru kortlagðir í þessum sameiginlega leiðangri.

Það er gríðarlega náið samstarf við Noreg um Jan Mayen svæðið og verður fullt samráð milli ríkjanna varðandi öryggis- og umhverfiskröfur borana á íslensku og norsku hafsvæði. Djúpboranir hafa haldið áfram við Noreg eftir slysið í Mexíkóflóa og má þar nefna borun á grófsvæðinu sem er á tæplega 1.400 metra dýpi í Noregshafi sem hófst í fyrravor og er að ljúka.

Olíuslysið í Mexíkóflóa er það mesta sem orðið hefur við borun eftir olíu á hafsbotni. Það er unnið að því að afla nánari upplýsinga um það sem úrskeiðis fór í Mexíkóflóa þannig að olíuiðnaðurinn og stjórnvöld olíuvinnsluríkja geti brugðist við á réttan hátt en það verður að teljast líklegt að slysið muni leiða til endurskoðunar á löggjöf varðandi öryggi við boranir á hafsbotni og um allan heim.

Iðnaðarráðuneytið mun ásamt Orkustofnun taka fullan þátt í því ferli sem þetta leiðir af sér á næstu árum og þá líka aftur í nánu samstarfi við Norðmenn. Á þessu stigi hefur engum sérleyfum verið úthlutað til rannsóknar og vinnslu á kolvetni við Ísland og því mörg ár þar til borun á íslensku hafsvæði kemur til framkvæmda. Engu að síður verð ég að segja, virðulegi forseti, að ég tel okkur vera á réttri leið í þessum efnum. Við höfum fullan hug á því og vonumst til að útboðið næsta vor eigi eftir að skila okkur (Forseti hringir.) góðum árangri þannig að þarna geti allt farið á fullt af því að það er rétt sem hv. þingmaður segir, tækifærin í þessu verkefni eru óendanleg til atvinnuuppbyggingar á Íslandi.