139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

neyslustaðall/neysluviðmið.

127. mál
[16:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra lauk máli sínu með því að segja að vonandi gætum við fundið olíu á Drekasvæðinu á þeim tíma sem við sitjum á Alþingi. Það er nú svo að þingmenn geta setið lengi og dæmi um það er einmitt neysluviðmið og neyslustaðall. Árum ef ekki áratugum saman hefur hæstv. forsætisráðherra verið mikill baráttumaður fyrir því að ríkisvaldið hafi eitt neysluviðmið eða neyslustaðal. Staðallinn mundi þannig gilda fyrir alla opinbera aðila sem byggja bætur, lán, styrki eða aðrar greiðslur á neysluviðmiðum. Í umræðu um málið í október 2006 kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra að mjög nauðsynlegt væri að koma á samræmdum neysluviðmiðum. Ráðherra sagði þá, með leyfi forseta:

„Hér á landi er þetta allt í einum hrærigraut. Hið opinbera tekur mið af a.m.k. fimm mismunandi framfærslugrunnum við ákvörðun bóta, lána, fjárhagsaðstoðar og styrkveitinga. Má þar nefna tryggingakerfi, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, Lánasjóð íslenskra námsmanna, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Íbúðalánasjóð og lánastofnanir auk þess sem Hagstofan gerir reglulegar neyslukannanir.“

Í skýrslu viðskiptaráðuneytisins, sem var m.a. afrakstur baráttu hæstv. forsætisráðherra fyrir neysluviðmiðum, var bent á að ekki væri nauðsynlegt að gera lagabreytingar eða setja ný lög til að taka upp neysluviðmið, heldur virtist þetta fyrst og fremst vera í höndum framkvæmdarvaldsins.

Í ágúst 2009 spurði ég hæstv. forsætisráðherra um hvað væri að frétta af þessu mikilvæga máli. Svaraði ráðherra því til að hún hefði óskað eftir því við þáverandi viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússon, að hann meti möguleikana á að fylgja eftir niðurstöðum skýrslunnar og uppfærði kostnaðartölur og endurmeti stöðuna að öðru leyti. Jafnframt lofaði hún að reka á eftir málinu. Því vakti það athygli mína að nú rúmu ári eftir þessa umræðu hefur lítið heyrst af gangi mála þótt eftirspurnin eftir samræmdu neysluviðmiði hafi hins vegar síst minnkað. Ég held hún hafi raunar aldrei verið meiri en einmitt núna eftir hrun bankanna.

Velferðarvaktinni, sem er stýrihópur á vegum félags- og tryggingamálaráðherra, er ætlað að fylgjast með félagslegum jafnt sem fjárhagslegum afleiðingum bankahrunsins fyrir fjölskyldur og einstaklinga í landinu með markvissum hætti og gera tillögur um aðgerðir í þágu heimilanna. Í haust hefur formaður vaktarinnar ítrekað kallað eftir sérstökum neysluviðmiðum, enda neysluviðmið lykilatriði við beitingu skuldaaðlögunar, við útreikninga á raunverulegri skuldastöðu heimilanna og til að tryggja fólki lágmarksframfærslu hér á landi.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Má vænta þess að ríkisstjórnin móti neyslustaðal/neysluviðmið í samræmi við tillögur í skýrslu á vegum viðskiptaráðuneytis frá því í október 2006? Er fyrirhugað að endurvekja hugmyndina um að neyslustaðall/neysluviðmið nái til allra opinberra aðila sem byggja bætur, lán, styrki eða aðrar greiðslur á neysluviðmiðum? Hefur efnahags- og viðskiptaráðherra uppfært kostnaðartölur við gerð og viðhald slíks neyslustaðals/neysluviðmiðs í samræmi við svör forsætisráðherra frá 12. ágúst 2009?