139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

Lánasjóður íslenskra námsmanna og ófjárráða háskólanemar.

169. mál
[16:58]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar athugasemd hv. þm. Eyglóar Harðardóttur þá vinnum við núna að innleiðingu laga um framhaldsskóla. Við fórum þá leið að settir voru af stað tilraunaskólar með nám í nýjum framhaldsskólaeiningum. Ætlunin er að við nýtum fordæmi þeirra til að læra af og miðla þekkingu inn í kerfið. Það liggur fyrir að fjármunir sem ætlaðir voru í innleiðingu laganna fylgja ekki eins og ætlunin var. Við munum nýta reynsluna til að skoða hvernig við getum aðlagað lögin að breyttum efnahagsveruleika og náð um leið markmiðunum þar sem skólar geta mótað sínar námskrár. Nám til stúdentsprófs þarf ekki endilega að vera jafnlangt þó við tryggjum ákveðinn grunn eins og hugsun og andi laganna var. Vinnan er í gangi þó hún hafi dregist af þessum ástæðum.

Við skynjum að það er mikill áhugi á skólakerfinu. Það er mikið unnið að nýjum styttri námsbrautum til framhaldsskólaprófs, þannig að það er mikil gróska sem rúmast innan laganna sem er í gangi.

Hvað varðar það hvenær niðurstöðu ráðuneytisins með þennan stuðning er að vænta þá, eins og ég sagði, hef ég rakið þá vinnu sem við höfum verið í. Núna skoðum við lögin um jöfnunarsjóð. Það eru reyndar önnur atriði sem við þurfum að skoða við endurskoðunina, þannig að munum skoða þau út frá fleiri sjónarmiðum. Það kæmi mér ekki á óvart að ég mundi ná a.m.k. að kynna hugmyndirnar í vetur og vonandi ná að leggja þær fram í frumvarpsformi.