139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

veiðikortasjóður.

124. mál
[18:07]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmanninum fyrir að vekja athygli á þessu máli sem hefur verið eitt af því sem ég hef verið að vinna að tiltektum í síðan ég tók sæti í umhverfisráðuneytinu. Þarna eru tilteknar athugasemdir sem komið hafa árvisst til ráðuneytisins, eins og þingmaðurinn vék lauslega að í ræðu sinni.

Ef ég fer í gegnum spurningarnar eina af annarri er það svo að Náttúrufræðistofnun fjármagnar vöktun fuglastofna, þar á meðal rjúpu, af fjárheimildum sínum fyrst og fremst. En í ljósi mikillar fækkunar í rjúpnastofninum á tímabili, mikilvægi hans sem veiðistofns og umræðu um veiðistjórn var ákveðið að efla rjúpnarannsóknir og hefur verið veitt fé til þeirra úr veiðikortasjóði. Ekki er óeðlilegt að veiðikortasjóður veiti fé til rannsókna á rjúpu eða öðrum stofnum þar sem þeirra er sérstaklega talin þörf á hverjum tíma og samræmist það vel hinni svokölluðu nytjagreiðslureglu, þ.e. að þeir sem nytja tiltekna náttúruauðlind standi undir kostnaði við að tryggja sjálfbæra nýtingu hennar.

Til langs tíma litið er engin sérstök ástæða til að rjúpnarannsóknir fái sérstaka meðferð í úthlutunum í veiðikortasjóði en aukin áhersla á rjúpnarannsóknir undanfarin ár hefur skilað sér í betri þekkingu á stofninum og líklega betri stjórn veiða úr honum.

Varðandi úthlutun úr sjóðnum hefur frá árinu 1995–2009 verið úthlutað um 115 millj. kr. af tekjum af sölu veiðikorta til rannsókna, vöktunar og kynningar á rjúpnastofninum. Á sama tíma hefur verið úthlutað til nokkurra verkefna sem tengjast rannsóknum og vöktun á gæsastofninum um 37 millj. kr.

Þingmaðurinn spyr um sundurliðun á kostnaði. Sundurliðunin er til staðar í bókhaldi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Það sem bókað er á viðfang rjúpnarannsókna eru dagpeningar, yfirvinna og ýmis vörukaup, en föst laun bókfærast á sameiginlegt launaviðfang Náttúrufræðistofnunar Íslands og þar er ekki um útselda vinnutaxta að ræða heldur venjulegan launakostnað, þ.e. laun og launatengd gjöld. Akstur er hins vegar færður í akstursdagbók sem staðsett er í bifreiðum stofnunarinnar.

Við gerð áætlana um rannsóknir og umsóknir um fjármagn til þeirra hjá Náttúrufræðistofnun er ekki notaður taxti stofnunarinnar fyrir útselda vinnu heldur er miðað við beinan launakostnað. Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands hefur hlutfallslegur kostnaður vegna dagpeninga og aksturs við rjúpnarannsóknir verið um 30% af heildarkostnaði.

Hvað ræður úthlutunum? spyr þingmaðurinn. Fyrst og fremst er tekið mið af lögum og reglugerðum um verndun, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum en umhverfisráðuneytið hefur lagt áherslu á að veita styrki til rannsókna og vöktunar á þeim tegundum sem heimilt hefur verið að veiða, einkum þeim sem verið hafa í hættu er stofnar hafa minnkað eða þeim sem vinsælar eru meðal veiðimanna. Einnig hefur fjöldi umsókna og það fjármagn sem er til úthlutunar hverju sinni áhrif á úthlutanir styrkja úr sjóðnum.

Varðandi samráð við veiðimenn eða Umhverfisstofnun hefur við úthlutanir styrkja úr veiðikortasjóði verið farið eftir reglum og leiðbeiningum sem tilgreindar eru í lögum og reglugerðum um veiðikort en frá því að veiðikortakerfinu var komið á hefur ævinlega verið leitað til Umhverfisstofnunar um umsóknir um styrki til rannsókna og vöktunar af tekjum af sölu veiðikorta.

Á þriggja ára tímabili fyrir síðustu aldamót setti þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Guðmundur Bjarnason, á laggirnar þriggja manna hóp með aðkomu veiðimanna til að meta og gefa umsögn um umsóknir úr sjóðnum og á grundvelli nýsettra verklagsreglna hefur verið óskað eftir tilnefningum í fimm manna ráðgjafarnefnd sem á að starfa með Umhverfisstofnun að því að gefa umsóknir í veiðikortasjóðinn og er einn fulltrúi hópsins tilnefndur af Skotvís.

Varðandi formlega styrki Náttúrufræðistofnunar úr sjóðnum frá árinu 2006 gerir umhverfisráðuneytið kröfu um að sótt sé formlega um styrki í sjóðinn hverju sinni og á það einnig við um Náttúrufræðistofnun Íslands. Frá árinu 2007 hefur stofnunin sótt formlega um styrki úr sjóðnum árlega en árið 2006 var úthlutað styrk til rannsókna á rjúpu á grundvelli rannsóknaráætlunar stofnunarinnar fyrir rjúpnarannsóknir.

Fyrirspyrjandi spyr hvort ráðherra hyggist nýta sér tillögu nefndar frá 2001 um úthlutunarreglur. Búið er að setja nýjar verklagsreglur um úthlutanir úr veiðikortasjóði og voru tillögur og ábendingar um úthlutunarreglur fyrir veitingu styrkja til rannsókna og vöktunar af tekjum af sölu veiðikorta sem borist höfðu ráðuneytinu hafðar til hliðsjónar við samningu þeirra reglna.

Er til stofnskrá fyrir veiðikortasjóð? spyr þingmaðurinn að lokum. Því er til að svara að ofangreindar verklagsreglur þjóna bæði sem stofnskrá fyrir sjóðinn og leiðbeining um meðferð umsókna um styrki í sjóðinn.

Ég vona að hér sé spurningum þingmannsins svarað.