139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja.

238. mál
[20:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það má vel vera að menn afhendi ekki upplýsingar nema á grundvelli svona nákvæmra tilskipana en þá finnst mér líka að nefndin þurfi að fara nákvæmlega í gegnum það hvort einhverja aðila vanti á þennan lista, t.d. sjúkrasjóðina, mér dettur það strax í hug. Hugsanlega einhverjir fleiri, Innheimtustofnun sveitarfélaga, ég veit ekki hvort hún er talin upp hér og aðrir sem búa yfir upplýsingum sem eru mikilsverðar fyrir stöðu heimilanna.

Ég tel að nefndin eigi að vinna að þessu með opnum huga og hafa heimild til breytinga. Það sem mér finnst vanta dálítið inn í þetta er hreinlega að setja um það fyrirmæli annaðhvort í greinargerð eða beint í lagatexta hvenær fyrstu upplýsingum skuli skilað. Eins og mér sýnist þetta vera núna, er þetta það opið að í rauninni gætu menn gefið sér góðan tíma til að stúdera þetta allt saman og farið í gegnum þetta í rólegheitunum þannig að niðurstöður liggi ekki fyrir fyrr en einhvern tímann. Ég vil að það sé sett mjög ákveðið hvenær eigi að klára þetta. Það má vel vera að hv. efnahags- og skattanefnd, sem ég sit í og fær þetta mál til skoðunar, geti sett inn eitthvað meira um það hvort einhverja aðila vanti í 2. gr. um afhendingu gagna og eins sett einhverja áætlun um það á hvaða tíma þessari skoðun eigi að vera lokið.