139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja.

238. mál
[20:27]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort nefndin megi breyta frumvarpinu og gera á því breytingar eða hvort það sé hugsað sem óumbreytanlegt. Auðvitað er frumvarpið hugsað en að sjálfsögðu er það þannig að nefndin ræður. Svipað frumvarp var lagt fram í mars og það dagaði uppi, þannig að nefndin ræður auðvitað hvort hún afgreiðir mál eða ekki en þá þýðir ekki lengur að skamma mig fyrir að ekki séu til aðgengilegar upplýsingar um skuldastöðu heimila og fyrirtækja ef nefndin kýs svo með að fara.

Varðandi ábendingar hv. þingmanns held ég að það sé einmitt mjög gott þegar nefndin fer yfir 2. gr. að hún kanni hvort einhverja aðila vanti þarna inn. Það kann vel að vera að okkur hafi yfirsést eitthvað. Ég held samt vegna þeirra dæma sem hann nefndi að t.d. sjúkrasjóðir komi inn með skattframtölum en það er sjálfsagt að athuga það sérstaklega.

Varðandi tímasetningar í frumvarpinu um ákveðna lagaskyldu um að skila upplýsingum á tilteknum degi þá hef ég alltaf haft fyrirvara á lagaákvæðum sem er óhjákvæmilegt að brjóta, t.d. ef gögn eru ekki til eða eitthvað kemur upp á eða slíkt. Ég treysti hins vegar hv. þingmanni, sem hefur bara lagt gott eitt til í umræðu um þetta mál og hefur mikinn á huga á málinu, og öðrum hv. þingmönnum að inna mig nákvæmlega eftir svörum. Ég hef enga trú á því að þingheimi verði svo illa brugðið að hann leyfi mér að komast upp með það að skila ekki niðurstöðum úr þessari úttekt eins fljótt og verða má á næsta ári.