139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

Orkuveita Reykjavíkur.

205. mál
[16:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið áhugavert að hlusta á hv. þingmenn Tryggva Þór Herbertsson og Pétur Blöndal útskýra þetta mál. Í grunninn er hér um að ræða að alþjóðleg yfirvöld eða Evrópusambandið, með einum eða öðrum hætti, gera athugasemdir við það hvernig staðið er að ábyrgðum hjá þessum fyrirtækjum af hálfu eigandans. Samkvæmt frumvarpinu er gert að tillögu að hér sé sett ábyrgðargjald. Hv. þingmaður Pétur H. Blöndal lýsti því sem svo að þá væri Orkuveitan í rauninni að borga Reykjavíkurborg fyrir muninn á lánshæfismatinu hjá fyrirtækinu og borginni. Það er mjög áhugavert, eins og þessir tveir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa farið yfir hér, að í rauninni ætti það að vera þannig að Orkuveitan stæði betur en Reykjavíkurborg ef allt væri eðlilegt. Þannig hefur það nú löngum verið. En þá er ég kominn að svari við andsvari hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra fór hér mikinn og sagði að við ættum ekki að skipta okkur af sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga. En það er það sem við erum nákvæmlega að gera núna með frumvarpinu. Það gengur út á að við erum að skipta okkur af því og setja lagaramma um það hvernig Reykjavíkurborg hagar ábyrgðum á lánum. Hæstv. ráðherra var í hróplegu ósamræmi við sjálfa sig þegar hún ásakaði þann sem hér stendur fyrir að vera að skipta sér af sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna. Hún flytur sjálf frumvarp sem gengur svo sannarlega þvert á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga, eftir túlkun hæstv. ráðherra sjálfrar eins og kom fram í andsvarinu. Því svo sannarlega eru það afskipti, miðað við túlkun hæstv. ráðherra á sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga, ef við látum hvorki meira né minna en ESA og Evrópusambandið skipta sér af því hvernig sveitarfélögin haga sér varðandi eigin fyrirtæki.

Staðreyndin er þessi: Við sköpum lagarammann fyrir orkufyrirtækin, sama hvort þau eru í eigu ríkisins eða sveitarfélaga og einkaaðila ef svo ber undir. Ef við trúum því að það sé rétt og gott að takmarka ábyrgð eigendanna með rekstrinum, væntanlega til að koma í veg fyrir að skuldbinding útsvarsgreiðenda sé of mikil, og í sömu átt snúa þær röksemdir sem hér komu fram um samkeppnissjónarmið, þá á það auðvitað við um allt annað sem snýr að rekstri þessa fyrirtækis.

Hæstv. ráðherra sagði áðan að það hefði nú eitthvað heyrst í mér ef ég hefði verið í borgarstjórn, tala nú ekki um stjórnarformaður Orkuveitunnar, ef svona umræða hefði komið upp. Já, það hefði heyrst eitthvað í mér. Ég hefði fagnað þessu gríðarlega. Ég flutti málið á þeim tíma þegar ég var í þeirri stöðu sem ráðherra vísaði til. Alla mína tíð í borgarstjórn talaði ég fyrir þessu. Ég mótmælti þessari lagabreytingu og þegar ég hafði tækifæri til, flutti ég frumvarp þar sem ég lagði til að þetta yrði tekið út úr lögunum. Það hefur verið stefna Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í.)

Ég ætla að lesa úr greinargerðinni með því frumvarpi sem var flutt fyrst 2003 og aftur 2004. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi þessu er lagt til að ákvæði laga um fyrirtæki á orkusviði er varða tilgang og fjárfestingarheimildir slíkra fyrirtækja verði þrengd. Heimildir fyrirtækja á orkusviði til að stunda eða taka þátt í starfsemi á ólíkum sviðum eru mjög víðar í gildandi lögum þar sem tilgangur þeirra er sagður m.a. vera „viðskipta- og fjármálastarfsemi“. Því miður hefur reynslan sýnt að ekki fer vel að orkufyrirtæki taki þátt í starfsemi sem er óskyld orkurekstri. Það er mismunandi á milli fyrirtækja á orkusviði hvernig þau hafa nýtt rúmar heimildir laga til reksturs og fjárfestingar. Segja má að eitt þeirra, Orkuveita Reykjavíkur, hafi gengið hættulega langt, farið út í alls óskyldan rekstur og greitt það dýru verði. Dæmi um fjárfestingar sem Orkuveita Reykjavíkur hefur farið út í eru rekstur net- og fjarskiptafyrirtækja, fiskeldi, risarækjueldi, hörverksmiðja og ljósmyndabanki. Starfssvið flestra starfandi orkufyrirtækja er þrengt samkvæmt frumvarpinu en ekki verður séð að það komi mikið að sök þar sem flest þeirra hafa haldið sig við rekstur sem samrýmist vel ákvæðum laga um rekstur þeirra eins og þau munu standa verði frumvarpið að lögum. Auk þess er fyrirtækjum heimilað skv. 5. gr. frumvarpsins að eiga áfram þær fjárfestingar sem þau hafa þegar lagt í á grundvelli gildandi laga. Við sölu slíkra eigna og endurfjárfestingar er fyrirtækjunum þó gert skylt að fylgja gildandi lögum á hverjum tíma.“

Virðulegi forseti. Það er búið að koma í veg fyrir mikið af þessu sem vinstri mennirnir fóru í. Ég gerði það sjálfur sem stjórnarformaður Orkuveitunnar. Þá hættu menn í hörverksmiðju og risarækjueldi og ljósmyndabanka. Komið var í veg fyrir að Orkuveita Reykjavíkur mundi fjárfesta í 200–300 sumarbústöðum við náttúruperluna Úlfljótsvatn og komið var í veg fyrir að Orkuveitan keypti á þeim tíma grunnnet Landssímans á yfir 20 milljarða kr. Hvernig haldið þið að ástandið væri á fyrirtækinu ef þessar fyrirætlanir vinstri manna hefðu náð fram að ganga? Hvernig halda menn að það væri? (Gripið fram í.)

Ég vísa því fullkomlega til föðurhúsanna að eitthvert ósamræmi sé í málflutningi mínum sem borgarfulltrúi eða í stjórn Orkuveitunnar eða sem alþingismaður. Hann hefur alltaf verið á sama veg. Því miður, virðulegur forseti, hef ég haft hárrétt fyrir mér hvað þessi mál varðar.

Frumvarpið sem ég flutti gerði ráð fyrir breytingum á lögum um Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjun, Hitaveitu Suðurnesja og Norðurorku.

Ef hæstv. ráðherra talar fyrir því að breyta eigi hlutum varðandi samskipti eigenda fyrirtækisins og fyrirtækisins þá er hún, miðað við eigin skilgreiningu, að hafa áhrif á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna. Sá skilningur hæstv. ráðherra gengur ekki upp.

Varðandi samráðið, virðulegi forseti, höfum við sem betur fer þá reglu í þinginu, þó svo að núverandi ríkisstjórn hafi ekki verið dugleg að nýta sér hana, að senda mál til umsagnar. Við fáum fram sjónarmið aðila sem eiga hagsmuna að gæta. Og að sjálfsögðu eigum við að fá sjónarmið núverandi borgarstjórnar Reykjavíkur. Nema hvað? Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugmyndaflug til að detta það í hug að ég þyrfti að taka það sérstaklega fram en þá kannski gleymdi ég í smástund hvaða ríkisstjórn er við völd. Fyrir núverandi ríkisstjórn er þetta auðvitað stórmál, að hafa samskipti við þá sem hagsmuna eiga að gæta, og þarf að taka það sérstaklega fram.

Ég tók þetta upp þegar hæstv. fjármálaráðherra flutti sitt mál. Það verður nú að segjast eins og er að hann var öllu rólegri en hæstv. iðnaðarráðherra. Hér var ágætisumræða um þennan þátt málsins, umræða sem við verðum að taka ef menn tala í fullri alvöru um að koma í veg fyrir að þau mistök sem gerst hafa endurtaki sig. Ég mundi nú ætla að það væri fagnaðarefni fyrir hæstv. ráðherra ef þingmenn kæmu með ábendingar og tillögur um það sem betur má fara.

Því miður náði lagafrumvarpið sem ég flutti á sínum tíma með hv. þingmönnum Einari Oddi Kristjánssyni, Sigurði Kára Kristjánssyni, Bjarna Benediktssyni, Birgi Ármannssyni og Pétri H. Blöndal ekki fram að ganga. Það var dýrt fyrir þjóðina. Nú höfum við tækifæri til að laga það sem aflaga fór. Þá er spurning hvort hæstv. ráðherra vilji taka þátt í því eða hvort hæstv. ráðherra ætlar að svara eins og hún gerði áðan. Ef menn ætla að nálgast þessa umræðu með slíkum hætti þá held ég að við fáum ekki prik í kladdann hjá þeim sem fylgjast með.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða þetta mál gaumgæfilega. Eðli málsins samkvæmt mun ég fylgja þessu máli eftir eins og ég hef alltaf gert, sama í hvaða stöðu ég hef verið. Ég nefndi aftur að því miður hafði ég rétt fyrir mér. Varnaðarorð mín voru ekki of sterk þegar menn fóru í hina ýmsu leiðangra með orkufyrirtækið, hvort sem fjárfest var í fjarskiptafyrirtækjum, netfyrirtækjum, risarækjueldi, sumarbústaðarekstri eða hvað það nú var sem menn fóru í — því miður. Ég vildi að ég hefði haft rangt fyrir mér. Ég vildi það í fullri einlægni. Þá stæði fyrirtækið miklu betur. En það var ekki og nú hvet ég hæstv. ráðherra sem ber ábyrgð á þessu máli að fara vel yfir þetta og skoða það með opnum huga. Ég er sannfærður um að ef hæstv. ráðherra, sem hefur gert margt gott í sinni tíð, geri það muni hún komast að þeirri niðurstöðu að nú er kjörið tækifæri til að breyta þessu þannig að við komum í veg fyrir þau slys sem við höfum séð í fortíðinni.