139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

Lúganósamningurinn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum.

234. mál
[16:37]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að það hafi ekkert með aðlögun okkar að Evrópusambandinu að gera að öðru leyti en því að við erum að staðla regluverk okkar og lög á því sviði og ýmsum öðrum þannig að dómsniðurstöður gildi ekki aðeins hér á landi heldur höfum við tryggingu fyrir því að þau geri það einnig í Evrópuríkjum. Það hefur samkvæmt mínum skilningi ekki neitt með gjaldmiðilsmál að gera enda tekur Lúganósamningurinn til Evrópusambandsríkjanna almennt óháð því hvaða gjaldmiðil þau hafa, ég vísa þar í Svíþjóð og önnur lönd. En samkvæmt skilningi mínum þurfa Danir eftir að þeir höfnuðu Maastricht-samkomulaginu sem tekur m.a. til ýmissa þátta dóms- og innanríkismála, að taka sérstaklega upp milliríkjasamninga sem snúa að þeim málum.

Hvers vegna ekki eru talin upp þau mál sem samningurinn tekur til heldur valin hin gagnstæða leið að nefna þau sem hann tekur ekki til? Það er einfaldlega talið skýrara. Það tekur ekki til tiltekinna málaflokka en á við um einkamál almennt. (VigH: Tekur til?) Ja, það tekur til ágreiningsmála sem upp koma milli einstaklinga og fyrirtækja á markaði, ekki gjaldþrotamála en margvíslegra deilumála sem upp koma. Þá er samningurinn trygging fyrir því að dómsniðurstöður gildi á öllu þessu (Forseti hringir.) svæði og tel ég það vera til hagsbóta. Ég minni á að við erum að endurnýja samning sem gerður var (Forseti hringir.) 1988 eða fimm árum áður en við gengum inn í hið Evrópska efnahagssvæði.