139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

birting leyniskjala frá bandaríska sendiráðinu.

[15:19]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þessi svör og fyrir að upplýsa að utanríkisráðuneytið hefur fengið tilkynningu um það formlega að birting þessara skjala væri yfirvofandi.

Mig langar til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann telji þetta eðlileg vinnubrögð, þ.e. hvernig stjórnarerindrekar sem starfa í viðkomandi löndum undir sérstakri vernd viðkomandi stjórnvalda hafa tekið að sér hlutverk njósnarans og skila skýrslum um hvaðeina sem þeir verða áskynja í trúnaðarsamtölum við bæði almenning, svo sem eins og blaðamenn, eins og fram hefur komið í þessum gögnum, og hvort starfsemi af þessu tagi tíðkist kannski í íslensku utanríkisþjónustunni, hvort álíka minnisblöð séu skrifuð þar. Það verður athyglisvert að sjá þessi skjöl því að á þeim tíma, 2005–2009, sem þau (Forseti hringir.) taka til hefur ýmislegt gerst í íslensku þjóðlífi. Það verður athyglisvert að sjá hvaða augum Bandaríkjamenn líta það.