139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

atvinnuuppbygging á Bakka í Þingeyjarsýslum.

[15:35]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Sem betur fer fer hv. þingmaður með rangt mál hér vegna þess að a.m.k. fleiri en einn hefur áhuga á að kaupa þessa orku og er í aktífum viðræðum við Landsvirkjun um kaup á henni. Það er komin samkeppni um kaup á þessari orku. (BJJ: Ef tveir eru …) Það hlýtur að vera fagnaðarefni fyrir okkur sem hér erum inni og ég held að það sé ekki stjórnmálamanna að skipa sér í fylkingar að baki einstaka fyrirtækjum. Ég tel að þetta verði á endanum viðskiptalegar ákvarðanir (Gripið fram í.) og þannig fáum við mest verðmæti út úr þessu. Þess vegna er ég t.d. ekki sammála þingsályktunartillögu sem liggur fyrir þinginu þar sem þingmenn fylkja sér að baki einstaka fyrirtækjum sem eru að fara í samningaviðræður við Landsvirkjun um kaup á orkunni fyrir norðan. Þetta er eins óskynsamlegt fyrirkomulag og maður getur ímyndað sér. Það skiptir núna máli að Landsvirkjun fái rými til að semja þannig að það fáist sem (Forseti hringir.) mest verðmæti fyrir orkuna sem er fyrir norðan. Þannig eingöngu tel ég að við eigum að vinna þessi mál.