139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

152. mál
[15:19]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni þakkir hans í garð nefndarinnar. Ég taldi rétt að koma upp og árétta að á fundi nefndarinnar fyrr í dag þar sem umboðsmaður skuldara og ýmsir aðrir komu, eins og ég taldi upp í nefndaráliti, kom fram að afstaða umboðsmanns skuldara var mjög skýr, að mikilvægt væri að ná heildarsamkomulagi. Það eru fáir eins vel að sér í greiðsluaðlögunarúrræðum og umboðsmaður skuldara og taldi hún að mjög erfitt væri að ná fram vernd fyrir ábyrgðarmenn með löggjöf eins og dómur Hæstaréttar hefur sýnt og að mjög mikilvægt væri að ná heildarsamkomulagi við kröfuhafa. Þess vegna ákvað nefndin að skrifa framhaldsnefndarálit þótt ekki sé um breytingar á frumvarpinu að ræða til að ítreka að löggjafinn er sama sinnis og að við teljum brýnt að samkomulag náist um þessi efni svo þau úrræði sem við erum að smíða lendi ekki í uppnámi. Við munum senda nefndarálitið til allra sem hlut eiga að máli til að sú afstaða löggjafans komi skýrt fram, að okkur er mikið í mun að aðilar komist að samkomulagi.