139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[16:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hæstv. forsætisráðherra er kunnugt um komu mjög miklar athugasemdir fram við þau áform sem voru boðuð í frumvarpinu sem lá fyrir í haust um stofnun eins atvinnuvegaráðuneytis og aftur verkefnatilflutning milli annarra ráðuneyta, einkum yfir til umhverfisráðuneytisins sem átti að fá heitið umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Mér sýnist að allir þeir hnútar sem voru fyrir hendi í þeim efnum séu enn óleystir. Ég veit auðvitað ekki hvaða umræður eiga sér stað innan ríkisstjórnarflokkanna um þessi mál en út á við virðist ekki vera nein hreyfing í þessum efnum þannig að mér finnst enn nokkuð óljóst hvaða tímaplan, ef við getum orðað það svo, ríkisstjórnin hefur í sambandi við það að hrinda þessum áformum sínum í framkvæmd.

Ég leyfi mér því að endurtaka spurninguna og geri hana kannski skýrari með því að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort fyrir liggi skýr tímaáætlun um það hvernig eigi að hrinda í framkvæmd þeim áformum sem fyrir liggur að ríkisstjórnin hefur um stofnun þessara tilteknu ráðuneyta eða ráðuneyta með nýjum heitum, sameiningu og verkefnatilflutning eins og lá fyrir í haust, og hvort búast megi við frumvörpum um þessi efni á næstunni.