139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[16:44]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil minna hv. þingmann á, af því hann er svo undrandi á því að við séum að vinna að undirbúningi að því að sameina þessi ráðuneyti, að það stendur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Sá ráðherra sem hv. þingmaður nefndi veit auðvitað hvað skrifað er og hvað stendur í stjórnarsáttmálanum, það er eitthvað sem þessir flokkar náðu samkomulagi um áður en þeir settust í ríkisstjórn. Það hlýtur að skipta miklu máli.

Flestir sem hafa rætt þessi mál á undanförnum árum — á undanförnum árum — telja að hægt sé að auka mikið hagkvæmni og bæta árangur með samþættingu verkefna ráðuneytanna. Ég tel afar mikils virði að sameina þessi þrjú ráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og síðan iðnaðarráðuneytið, sem er minnst þessara ráðuneyta. Ég tel að það muni skila okkur verulega áleiðis í að bæta hagkvæmni í stjórnkerfinu að sameina þessi ráðuneyti.

Varðandi hagsmunaaðila mun verða haft samband við þessa aðila og haft við þá samráð. Ákveðinn hópur vinnur nú í samráði í ráðuneytunum. Ég veit ekki nákvæmlega hvar hann er staddur í því ferli, en það liggur algjörlega ljóst fyrir að það verður rætt við þessa aðila og haft við þá samráð áður en gengið verður að því að sameina þessi ráðuneyti. Þá munu koma að því verki fulltrúar forsætisráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins að því er það ráðuneyti varðar og síðan að sjálfsögðu fulltrúar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Það liggur alveg fyrir að áður en gengið verður í sameininguna mun verða farið í samráð við þessa aðila, sem ég tel mikilvægt.

Ég ítreka að þetta stendur í stjórnarsáttmálanum. Það er ekki hægt að kalla það rugl. Þetta er það sem margir sem um það hafa fjallað á undanförnum árum (Forseti hringir.) hafa séð fyrir sér að væri brýnast að gera að því er varðar sameiningu ráðuneytanna.