139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[16:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í deilur hæstv. forsætisráðherra og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um hvort þessi áform séu rugl eða ekki, ég er ekki fær til þess að vera dómari í þeirri sök. Ég vek hins vegar athygli á því að það sem hæstv. ráðherra greinir okkur frá er í rauninni að farið verður í sameiningu á ráðuneytunum og verkaskipaninni breytt hvort sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og öðrum þeim sem talað hafa í svipaða veru líkar betur eða verr.

Hæstv. forsætisráðherra sagði réttilega: Það stendur allt saman í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Mikið rétt, þar stendur það. En það hefur heldur betur ýmislegt gerst síðan.

Í fyrsta lagi. Á fundi einnar helstu valdastofnunar Vinstri grænna — ég man ekki nákvæmlega hvað þær heita — í janúar á þessu ári var ályktað gegn þessu, þannig að mér sýnist að ráðherrar og þingmenn VG hafi tæplega mikið umboð til að vinna áfram að þessu máli.

Í öðru lagi. Þegar þessi mál voru rædd í umræðu um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands kom hv. þm. Atli Gíslason upp í ræðustól fyrir hönd hóps þingmanna Vinstri grænna. Hann las þar yfirlýsingu og lýsti algjörri andstöðu við þessar hugmyndir. Hann rökstuddi í mörgum tölusettum liðum að óskynsamlegt væri að fara í þessar breytingar.

Í þriðja lagi kom hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem ég hélt að hefði eitthvað um málið að segja, eðli þess samkvæmt, í ræðustól Alþingis. Hann lagði lykkju á leið sína til þess að geta kallað þetta mál rugl — hreint rugl.

Það er vel hægt að hugsa sér að ræða einhverjar breytingar á fyrirkomulagi Stjórnarráðsins, ég ætla ekki að loka á það. En eitt vil ég segja: Það er algjörlega fráleitt að ætla sér, (Forseti hringir.) sem einn hluta af þessum breytingum, að taka auðlindanýtingar- og auðlindastýringarþáttinn úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, eftir atvikum nýju atvinnuvegaráðuneyti, og setja (Forseti hringir.) það inn í nýtt umhverfisráðuneyti. Það kemur að mínu mati ekki til greina.