139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[17:17]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég sagði aldrei í ræðu minni að ég vildi endurreisa gamla Ísland og hv. þingmaður hefur eitthvað misskilið inntakið í ræðu minni. Við horfum fram á það að mikill hluti af sparifé landsmanna liggur ónýttur inni í fjármálastofnunum, safnar þar vöxtum, þeir peningar fara upp í Seðlabanka og ríkið er í sjálfu sér að borga vexti af þeim. Ég er því fylgjandi að við náum að byggja upp öflugt atvinnulíf og ég held að hv. þingmaður deili þeirri skoðun minni. Einn hluti af því að byggja upp öflugt atvinnulíf er að þegar fyrirtækin koma úr eignarhaldi bankanna, endurskipulögð og lífvænleg, hafi þau þann valkost fyrir framan sig að geta farið á almennan hlutabréfamarkað. Það er mjög jákvætt ef almenningur sér sér hag í því að taka þátt í endurreisn og enduruppbyggingu þessara fyrirtækja.

Það er hægt að hvetja almenning til þess með því að veita honum afslátt fram í tímann án þess að til kostnaðar komi fyrir ríkið nú þegar ríkið er að reyna að ná endum saman. Það er einungis það sem ég er að tala um, ekkert annað. Það er hægt að formbinda þetta með einhverjum skilyrðum svo að það nýtist sérstaklega fyrirtækjum, einhverri ákveðinni gerð fyrirtækja, það er útfærsluatriði þingmanna og löggjafans. Heilt yfir hljótum við að horfa til þess að það er mikilvægt fyrir okkur að efla innlendan hlutabréfamarkað og að veita afslátt til almennings til þátttöku í því hlýtur að vera jákvætt skref.

Við þurfum ekkert að fara aftur til gamla Íslands þar sem þessi viðskipti áttu sér stað á mjög svo gráum mörkuðum, þar sem eftirlit Fjármálaeftirlitsins var veikt, þar sem lagaramminn var veikur, þetta hefur allt horfið til miklu betri vegar nú enda sjáum við að umfang Fjármálaeftirlitsins er að aukast um tugi prósenta ef við miðum við árin 2007 og 2008.