139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[18:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru ekki litlir peningar 7–8 milljarðar á ári. Fyrir ekki stærri hóp manna eru þetta umtalsverðar upphæðir. Ég mundi gjarnan vilja að menn skoðuðu það að stöðva inngreiðslur, stöðva réttindaávinnsluna í B-deildinni vegna þess að það er hægt, vegna þess að þetta fólk er yfirleitt ekki æviráðið. Hægt er að segja að þetta sé ígildi þess að segja ráðningarsamningi upp og gefa því þess vegna 12 mánuði, að eftir 12 mánuði greiði enginn í B-deildina nema kannski einstaka maður sem er með æviráðningu. Þetta mætti gera og þá stöðvast alla vega réttindaávinnslan en skuldbindingin situr eftir sem áður og hún er gífurlega há. Ég held að það sé mjög brýnt að vinna á því. Þetta er eiginlega fleinn í holdi inn í allt heila lífeyriskerfið. Þarna er verið að veita mjög góð lífeyrisréttindi jafnvel á há laun — ég nefni bara ráðuneytisstjóra og aðra slíka, ég held að ég geti bara nefnt það — þar er verið að greiða verulega háan lífeyri, langt yfir hálfa milljón á mánuði. Ég held að við þurfum að fara að skoða það að reyna að stöðva þetta og vinna úr þessu. En langbest yrði að meta hvers virði þessi lífeyrisréttindi eru á hvern einstakan, hvers virði þau eru, hvaða laun menn eru raunverulega með þegar lífeyrisréttindin eru tekin með og þá kæmi kannski annað hljóð í strokkinn þegar menn tala um laun opinberra starfsmanna.