139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég hef áhyggjur af því hvernig málefni gagnavera á Íslandi eru að þróast og hafa verið að þróast. Á síðasta vetri var þetta einn helsti vonarneistinn í uppbyggingu íslensks atvinnulífs og oft til þess vitnað að þarna væri grænn iðnaður á ferðinni sem mundi skapa mikil verðmæti og fjölda starfa. Með harmkvælum tókst að koma á fjárfestingarsamningi út af gagnaveri Verne Holdings í Keflavík í gegnum þingið í fyrravor. Að því fyrirtæki komu mjög áhugasamir erlendir fjárfestar, breskir, stór fjárfestingarsjóður þannig að uppbyggingin þar hefði verið og er tryggð.

Það lá fyrir í afgreiðslu iðnaðarnefndar á þessu máli í allan fyrravetur að nauðsynlegt væri að breyta virðisaukaskattsumhverfinu fyrir þessi fyrirtæki þannig að samkeppnisstaða þeirra gagnvart sambærilegum fyrirtækjum í Evrópu yrði löguð og þessi starfsemi gæti haslað sér hér völl. Það hefur ekki tekist. Málið hefur verið fast í fjármálaráðuneytinu svo mánuðum skiptir, sennilega upp undir eitt ár, þrátt fyrir að þetta hafi legið fyrir allan tímann og alltaf verið gefnar yfirlýsingar um að þetta mál yrði leyst samhliða fjárfestingarsamningi um Verne Holdings.

Nú er svo komið að þeir viðskiptavinir sem var búið að tala við og höfðu lýst yfir miklum áhuga á að koma til landsins eru að hverfa frá borði. Það er jafnvel hætta á því að þeir fjárfestar sem að málum voru komnir snúi sér annað með fjárfestingu sína. Undir er líka mikilvæg fjárfesting í sæstrengjum til Íslands. Ég vil því spyrja hv. formann iðnaðarnefndar, Kristján Möller, hvernig hann sjái þessi mál þróast, hvort hann sé ekki sammála mér um að það sé mjög mikilvægt að þingið taki þessi mál til alvarlegrar skoðunar núna og afgreiði málefni þessara fyrirtækja og samkeppnisumhverfi þeirra (Forseti hringir.) út af borðinu á þessu þingi, nú fyrir jól.