139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:39]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Þetta er þörf og góð umræða um Íbúðalánasjóð sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hóf hér áðan. Ég ætla ekki að fara yfir allt sem komið hefur fram í atkvæðaskýringum og víðar um þessa 18 milljarða kr. sem urðu 22 og allar breytingar og tilfærslur á tölum, heldur það sem mér finnst mjög umhugsunarvert þegar ég kem inn sem nýr þingmaður, að í heilt ár vissi hæstv. félagsmálaráðherra, reyndar ekki sá sem hér situr, að það voru mikil vandræði hjá Íbúðalánasjóði. Og það var skipuð nefnd. Nefndin skilaði af sér, þetta var rætt í þinginu 26. apríl og þá var þetta allt að koma, allt að gerast. Það gerðist samt ekki fyrr en að kvöldi 29. nóvember að eitthvað kom út og greinargerð var skilað 3. desember. Þetta er ekkert klink, það er verið að tala um 22 milljarða kr. En ég bið ykkur að athuga, hv. þingmenn sem hér sitjið og hlustið, að þetta er í besta falli, eins og fram kemur í greinargerð, með leyfi forseta:

„Ef miðað er við forsendur langvarandi efnahagslægðar þarf að leggja inn í sjóðinn 26,5 milljarða fyrir árslok 2010,“ — ekki 22, og áfram, með leyfi forseta — „og 6 milljarða kr. til viðbótar fyrir árslok 2011“.

Mér finnst þetta bara miklu alvarlegra vegna þess að við sitjum hér með ríkisstjórn sem stuðlar að langvarandi efnahagsvanda. Þetta snýst um miklu hærri tölur. Við erum að horfa á, eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir benti hér á í gær — ég hugsa að við séum að horfa á 43 milljarða kr. með því sem ríkisstjórnin ætlar að leggja sjóðnum til í sambandi við skuldavanda heimilanna. Mér finnst það alvarlegra mál að við erum að tala um miklu hærri tölur. (Forseti hringir.)