139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[21:20]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að fyrirtækin í landinu þurfa ekkert að óttast ef þau misnota ekki markaðsráðandi stöðu sína. Það er nú bara þannig í núgildandi samkeppnislögum að misnotkun a markaðsráðandi stöðu er bönnuð og þeir sem brjóta gegn þeim ákvæðum, fyrirtæki sem verða uppvís að því eru sektuð og þeim er refsað samkvæmt IX. kafla samkeppnislaga.

Hitt er annað mál að frumvarpið snýr ekki að því. Það snýr að því að veita Samkeppniseftirlitinu heimildir til þess að brjóta upp fyrirtæki sem ekki hafa brotið gegn lögum. Ef Samkeppniseftirlitið metur það þannig að aðstæður á markaði séu slíkar getur það gripið til aðgerða, það er það sem ég er að gagnrýna. Mér finnst eðlilegt að þeim sem misnota markaðsráðandi stöðu sína á samkeppnismarkaði verði refsað. Þannig eru lögin og ég set ekki út á þá lagagrein.

Hér er gengið miklu lengra, (Forseti hringir.) hv. þingmaður. Ég vona að hv. þingmaður viðurkenni það.