139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[22:00]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að ræðustíll minn var til umfjöllunar í ræðu hv. þm. (Gripið fram í.) Sigurðar Kára Kristjánssonar er það svo að þingreynsla mín er styttri en hans og ég hef lært það, m.a. af ræðustíl hans, að mikilvægt er að hafa skilaboðin meitluð svo að þau séu skiljanleg. Það var eingöngu það sem ég lagði áherslu á. Það er alveg skýrt, eins og lagatextinn lítur út núna eftir að meiri hluti viðskiptanefndar hefur sett handbragð sitt á hann, að í lagatextanum er tjón almennings lagt til grundvallar. (Gripið fram í.) Það verður ekki horft fram hjá mögulegum ávinningi neytenda af stærðarhagkvæmni í rekstri.

Mér finnst mikilvægt að leggja áherslu á þetta og þess vegna segi ég að Sjálfstæðisflokkurinn hefði betur komið með öðrum fulltrúum í viðskiptanefnd frá hinum fjórum flokkunum, Samfylkingu, Vinstri grænum, Hreyfingu og Framsóknarflokki, og tekið stöðu með neytendum í þessu sambandi og gefið Samkeppniseftirlitinu aukna heimild til að grípa inn. (Gripið fram í.)