139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:19]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Hv. þingmaður. Ég gæti ekki einu sinni skapað ágreining við virðulegan þingmann þótt ég vildi. Þessi boðskapur var í minni ræðu áðan. Þetta kallar á kjark. Þetta er verkefni sem flestir stjórnmálaflokkar ef ekki allir, í þeirri aðstöðu sem við erum í í gegnum árin, hafa veigrað sér við, þ.e. að stíga skref sem sýna raunverulega forgangsröðun þar sem menn þora að hlífa þeim geirum sem nauðsynlegt er að efla til þess að við komumst hraðar út úr kreppunni. Það er eðlilegt að þetta sé sagt til þess að við séum ekki að blekkja okkur með því að slíkt verkefni sé auðvelt í framkvæmd. En ég skora á okkur að hafa hryggjarstykki að leggja í leiðangurinn. Ef við styrkjum framhaldsskólana og háskólana sem eru vanhaldnir í alþjóðlegum samanburði, svo það sé líka sagt, mun það flýta endurreisn (Forseti hringir.) samfélagsins og koma okkur betur þegar til lengri tíma er litið.