139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[23:21]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég er ekki sammála þér í prinsippi, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson. Þau dæmi sem þú ert alltaf að vísa til og nefnir ekki er eitthvað sem flestir sem tala í þessum ræðustól virðast vera hræddir við að vísa til. Það getur alltaf eitthvað klikkað, hv. þingmaður, en í prinsippi eigum við að hafa fjölbreytni að leiðarljósi. Það getur aldrei verið slæmt að vera með hvata í menntakerfinu. Ég er kennari og ég vildi óska þess að í Vestmannaeyjum væru einkaskólar svo ég hefði val. Það getur aldrei verið slæmt að hafa val. Við viljum ekki eina ríkissúrmjólk frekar en eina ríkisskó. Við viljum val í skólakerfinu, við viljum val í heilbrigðiskerfinu. Maður þarf ekki að vera á móti menntun, ég get alveg gefið þér það, menn þurfa ekki að vera á móti menntun þó að þeir vilji ekki val í þessu. En þó að eitthvað, einhver tilraun með skóla eða eitthvað klikki, kannski bara vegna stjórnendanna, þýðir það ekki að hugmyndafræðin sé ónýt. Þetta er eitthvað sem hefur þvælst ansi mikið fyrir núverandi meiri hluta og greinilega einhverjum framsóknarmönnum líka að það er ekki allt ónýtt þó að eitthvað klikki.