139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[00:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Nokkuð er liðið á 2. umr. fjárlaga en enn eru margir á mælendaskrá enda margt um þessi fjárlög að segja. Að mínu mati eru fjárlög mikilvægasta efnahagslega plaggið, stærsta plaggið sem Alþingi samþykkir hverju sinni. Að mínu mati er það líka stórpólitískt plagg, á að vera það að minnsta kosti. Og þetta plagg er það þó að sumir vilji ekki viðurkenna það. En ég mun koma að því á eftir.

Að sjálfsögðu er eitt og annað jákvætt í fjárlagafrumvarpinu eins og það lítur út í dag. En það stóra í þessu máli er að mér finnst það segja ákveðna sögu um það hvernig vinstri flokkar hafa nálgast og munu nálgast viðfangsefni sín þegar kemur að ríkisvaldinu. Það versta er að þeir koma ekki hreint fram. Þeir segja ekki: Við erum að fylgja eftir okkar hugmyndafræði. Heldur er alltaf sami söngurinn sunginn og sama gamla platan spiluð: Þetta er svo svakalega erfitt, þetta er allt hruninu að kenna og við þurfum að taka til. Já, það eru margar brekkurnar sem við höfum þurft að fara og eigum enn eftir að fara. Við eins og aðrar þjóðir þurfum að fara í ákveðnar efnahagslegar aðgerðir en það er ekki sama hvernig það er gert og þar liggur hundurinn grafinn. Að mínu mati erum við að gerbreyta ákveðnu kerfi sem hér hefur verið, ekki bara skattkerfinu heldur samfélagi okkar, og það er ekki sagt hreint út. Hlutirnir eru ekki alltaf ljósir, þeir eru frekar leyndir og ég mun taka dæmi um það á eftir.

Reyndar eru tveir meginþættir í stefnu ríkisstjórnarinnar mjög skýrir. Það eru tvö pólitísk markmið sem hún þorir að hafa orð á. Hvaða markmið eru það? Jú, hún ætlar að passa upp á félagsauðinn og kynjuðu hagstjórnina. Þetta eru þau markmið sem hún þorir beinlínis að tala um sem sín flokkspólitísku hagsmunamál. Gott og vel, það má deila um þau. Við tökum öll undir að ýta þurfi undir jafnan rétt kynjanna, karla og kvenna, kynjuð hagstjórn kann að vera leið til þess. En hún kostar mjög mikla peninga í þessu frumvarpi og það sem verra er þá birtist hún ekki eins og maður hélt að hún ætti að birtast. Til að mynda koma tillögurnar í heilbrigðismálum verst niður á konum, þeim hópi sem við erum að reyna að taka aukið tillit til í gegnum kynjuðu hagstjórnina. Þannig að stefnumiðin sem ríkisstjórnin hefur sett sér strax í upphafi eru farin, þeim er kollvarpað af því að ríkisstjórnin getur ekki staðið við eigin stefnu. Þannig er þessi rauði þráður, þessi sannkallaði rauði þráður, í gegnum allt fjárlagafrumvarpið.

Ég talaði um að ríkisstjórnin væri að nota fjárlagafrumvarpið sem sitt pólitíska plagg — og það er ekkert að því — en þá verður hún líka að þora að bekenna fyrir hvað hún stendur. Hún stendur fyrir miðstýringu, hún stendur fyrir aukinn sósíalisma, ríkisforsjá — og það er ekkert að því að segja það í staðinn fyrir að fara þessar leyndu leiðir eða alla vega ekki þær leiðir sem má upplýsa. Ég skal taka nokkur dæmi. Ég ætla að byrja á minni dæmunum, þeim sem eru kannski ekki augljós öllum.

Þegar við stöndum frammi fyrir því að hagræða í ríkisfjármálum þurfum við að gæta að því að passa upp á val, val skóla, val einstaklinga, val foreldra, val fólks í heilbrigðiskerfinu — það er mín nálgun á það viðfangsefni. Ég er ekki að skorast undan því að hagræða eða skera niður. Þegar kemur að námsgögnum eru tvær leiðir sem við komum í gegn á sínum tíma eftir mikinn barning, annars vegar Námsgagnastofnun, sem fyllilega hefur risið undir ábyrgð sinni í áranna rás, ekki spurning um það, ríkisrekið batterí og hefur verið rekið með sóma. En það þarf að auka fjölbreytni í útgáfumálum þegar kemur að námsgögnum fyrir börnin okkar.

Við fórum mjög sanngjarna og hófsama leið, kannski var það ekki nógu stórt skref á sínum tíma, að stofna Námsefnissjóð svo að einkaaðilar gætu sótt í sjóðinn og séð um útgáfu. Skólarnir fengu úthlutað úr sjóðnum til að fara á markað og þannig varð samkeppni. Þá höfðum við ekki einungis ríkisrekna námsgagnaútgáfu heldur sáum við um leið aukna fjölbreytni í útgáfu námsbóka fyrir grunnskóla. Nú er verið að taka fyrir það — 40 milljónir en niðurskurðurinn á Námsgagnastofnun er enginn. Ég tek þetta sem dæmi um að það er verið að breyta kerfinu, það er verið að breyta hugsunarhættinum. Það er verið að miðstýra öllu og það er ekkert verið að hafa orð á því. Allt er þetta gert í ljósi þess að hrunið varð. Þetta er pólitísk hugmyndafræði. Það þurfti ekki kollsteypu í efnahagsmálum til að fara í þetta heldur er þetta fyrst og fremst pólitísk hugmyndafræði. Þetta er eitt dæmi.

Ég gæti nefnt dæmi sem okkur öllum eru kunn, t.d. gagnaver. Því í ósköpunum er ekki búið að leysa það mál? Það er út af því að Vinstri grænir eru enn í sama gamla hamnum. Við munum að gert var grín að okkur, að við værum með einhverja frasa, m.a. við sjálfstæðismenn, þegar við sögðum að Vinstri grænir væru alltaf á móti. En þeir virðast ekki hafa gleymt því hlutverki sínu. Þeir voru á móti í stjórnarandstöðu, þeir eru komnir í ríkisstjórn og þeir eru á móti í ríkisstjórn. Þeir eru á móti gagnaverunum. Hver ber ábyrgð á því að leysa það mál? Það er ráðherra Vinstri grænna, fjármálaráðherra. Hver ber ábyrgð á verkefni sem tengist Keflavíkurflugvelli og nefnist ECA-verkefnið? Það er ákveðin þjónusta í kringum það. Það er: Stopp — nei, við erum á móti. Það er ráðherra Vinstri grænna, það er dómsmála- og mannréttindaráðherra.

Hver var ráðherra þegar við ræddum aukna fjölbreytni í heilbrigðisþjónustu, og þá ekki bara á Suðurnesjunum? Ég man mjög vel þegar við, þingmenn Suðvesturkjördæmis, fórum upp í Mosfellsbæ þar sem var verið að kynna PrimaCare-verkefnið, áhugavert verkefni á sviði heilbrigðisþjónustu sem eðlilegt er að fái framgang undir þeim formerkjum sem við þurfum ávallt að hafa þegar kemur að rekstri heilbrigðisþjónustu. Það er ekkert óeðlilegt við það. En Vinstri grænir hafa verið þar á móti. Það er ekki fyrr en nýr heilbrigðisráðherra er skipaður að hann fer að opna aðeins glugga en þá er hann ekki lengur í Vinstri grænum, sá heilbrigðisráðherra, þá er það embætti komið yfir til Samfylkingarinnar. Ég er ekki að tala um að Samfylkingin sé sérstaklega umburðarlynd þegar kemur að atvinnusköpun og atvinnumálum en ljóstýran er þó aðeins meiri þar. Og nota bene, ég er ekki að tala um álver. Í guðanna bænum ekki koma með þann frasa að við séum alltaf að tala um álver. Ég er að nefna hér einstök dæmi um að verið er að breyta samfélaginu án þess að það sé upplýst. Ef Sjálfstæðisflokkurinn talar ekki um val, fjölbreytni og frelsi mun enginn annar flokkur gera það. Það er kannski ekki smart í augnablikinu en það verður að halda áfram að tala um þessa þætti.

Ég get nefnt eitt dæmi í viðbót sem ég rak augun í. Nú er greinilega verið að beina öllum sjávarútveginum í eitt ríkisrekið eftirlit. Allt eftirlit í sjávarútveginum verður nú sett til ríkisins í stað þess að gera þjónustusamninga við hina einstöku lögaðila í samfélaginu. Nú er verið að beina þessu inn í ríkisrekinn farveg, nýjustu fréttir. Er þetta tilviljun? Er það tilviljun að þetta gerist á vakt vinstri stjórnar? Nei, þetta er eitthvað sem við máttum búast við og við vorum búin að segja en ríkisstjórnin segir okkur ekki hvað hún er að gera.

Stóra dæmið varðandi þessa breytingu á samfélaginu, breytingu á kerfinu, breytingu á ríkinu, eru þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu. Hvað segir AGS sem sumir segja að ekki megi minnast á; engu að síður er nauðsynlegt að minnast á AGS því að ríkisstjórnin, og ég ætla að hæla henni fyrir það, hefur þó haldið áfram að framfylgja efnahagsstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og við vitum um hvað málið snýst. En ekki eru allir innan stjórnarliðsins samþykkir þeirri efnahagsstefnu sem lagt er upp með. En hvað segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn?

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði meðal annars í sumar að skattkerfið hefði í meginatriðum verið ágætt þar til á síðasta ári. Þá hafi flækjustig skattkerfisins verið aukið og mælt með því að það yrði frekar flókið og skattbreytingarnar hefðu orðið það flóknar að enginn hefði yfirsýn yfir það. Það var enginn að biðja um einhverjar skattkerfisbreytingar út af efnahagshruninu. Það þurfti ekki að fara út í þær breytingar. Kerfið var einfalt, flókið að sumra mati en tiltölulega einfalt. Ég er með úttektir úr Fréttablaðinu, Markaðnum, frá því í nóvember. Þar stendur meðal annars: „Stjórnvöld virðast hafa valið ranga leið.“ Þar er t.d. rætt við erlenda skattasérfræðinga sem þekkja þessi mál til margra ára. Ég nefni t.d. Völu Valtýsdóttur, sem er sviðsstjóri á skatta- og lögfræðisviði hjá Deloitte. Hún segir að tíðar skattbreytingar fæli fjárfesta frá landinu. Sum lög séu svipuð sambærilegum lögum og voru í gildi í Evrópu fyrir 20 árum. Þykkt lag af ryki sé á lögum um virðisaukaskatt og að stjórnendur fyrirtækja séu viljugri til að fjárfesta í rekstri í öðrum löndum þar sem skattumhverfið er stöðugt og hagstætt.

Síðan kemur það fólki á óvart að hingað streymi ekki fjárfestingarnar, alla vega í einhverjum mæli. Jú, það hefur eitthvað tekist en hægt væri að gera miklu meira ef menn hefðu áttað sig á því að það skiptir máli að hafa kerfið gegnsætt, einfalt og ekki allt of flókið og ekki allt of miðstýrt. En það er einmitt verið að fara aðra leið. Þetta er dæmi um það sem ég á við. Þetta er dæmi um að við erum að upplifa, mjög markvisst en frekar leynt, breytingar á íslensku kerfi, breytingar á íslensku samfélagi. Í menntakerfinu, að vissu leyti í heilbrigðiskerfinu, í skattkerfinu og víðar mætti leita.

Mig langar að halda mig við erlendar fjárfestingar og skattumhverfið. Í þessu blaði — og þurftu margir að lesa það tvisvar, segir í fyrirsögn að skattumhverfi sé skárra í Svíþjóð en hér. Breyting á fyrirtækjasköttum í fyrra hafi skilað þveröfugri niðurstöðu. Ríkið hafi orðið af milljarðatekjum. Ekki af því eingöngu að menn væru að hækka fyrirtækjaskattana verulega, hlutfallslega, frá því sem áður var, heldur miklu frekar vegna þess að verið væri að flækja kerfið. Það væri verið að leggja á nýja skatta og t.d. vaxtagreiðslur til erlendra aðila og breytingar á frádráttarreglum vegna arðs og söluhagnaðar — breytingar sem hafi stuðlað að því að fyrirtæki sem hafa kannski ekki allt of mikið umleikis hér heima, en skila engu að síður drjúgum tekjum í ríkissjóð, væru að hverfa. Við erum alla vega ekki eins aðlaðandi og við gætum ellegar verið. Þá er ég ekki að tala um að ekki megi breyta skattkerfinu en það verður þá að segja hlutina eins og þeir eru.

Benda má á fleiri greinar og skýrslur, t.d. var gerð skýrsla um fjárfestingarkosti fjögurra landa, Íslands, Flandern í Belgíu, Svíþjóðar og Möltu af því að öll þessi lönd eru að hugsa um hvernig hægt sé að laða að erlent fjármagn til landsins. Þar kom mjög skýrt í ljós að hér er stjórnsýslan, eins og þar var sagt, hægvirk. Það er af sem áður var þegar sérstaklega var dregið fram að stjórnsýslan hér væri skilvirk, hér væri hún hægvirk — það þarf ekki annað en benda á gagnaverin, hvernig sú afgreiðsla hefur verið af hálfu fjármálaráðuneytis. Einnig var bent á ýmis regluverk sem gerðu umhverfið óaðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta. Það er hægt að tína til margar svona greinar. Skattbreytingarnar, sem stjórnvöld hafa staðið fyrir, fæla einfaldlega frá fjárfesta og fyrirtæki. Vissulega viljum við styðja ríkisstjórnina í því að gera sem best í þessum efnum. Við verðum að halda henni við efnið. Það er hlutverk stjórnarandstöðunnar og þess vegna er það sagt í mikilli vinsemd að menn verða að átta sig á því þegar þeir fara út í svona breytingar hvað þær þýða. Þó að markmiðið og viljinn sé af hinu góða verða menn að átta sig á afleiðingum markvissra kerfisbreytinga í átt að aukinni ríkisforsjá.

Ég talaði um skattana. Eins og við segjum í nefndarálitinu erum við að upplifa í þessu fjárlagafrumvarpi þriðju bylgju skattahækkana ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, vinstri stjórnarinnar. Við vitum að skattar hafa nú þegar verið hækkaðir um 55 milljarða og næstu skattahækkanir eiga að kosta almenning og fyrirtæki að minnsta kosti 11 milljarða. Fjármagnstekjuskattur hefur hækkað um 10 prósentustig frá því að ríkisstjórn vinstri manna tók við, upp í 20%, skattar á fyrirtæki hafa farið úr þessu þrepi, úr 15 í 18, úr 18 í 20, og við spyrjum okkur hvort þar verði látið staðar numið. Ég er hrædd um að ekki sé búið að setja stopp á þetta hækkunarferli ríkisstjórnarinnar.

Ég er líka smeyk um að tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins standist ekki. Ég vonast auðvitað til þess að hagvöxtur aukist. Ég vona svo heitt og innilega að menn sem hafa einhvern skilning á atvinnumálum og atvinnulífi í ríkisstjórnarflokkunum fái sitt í gegn. Við hlustuðum á hv. þm. Kristján Möller áðan. Við vitum að verið er að reyna að semja við lífeyrissjóðina um 40 milljarða framkvæmdir í vegamálum sem vonandi verða á suðvesturhorninu því að hér er mesta atvinnuleysið og á Suðurnesjunum. Ekki síst í ljósi þess að innan við 10%, og hefur hlutfallið ekki verið svo lágt í mörg ár, af framkvæmdafé til samgöngumála fer á suðvesturhornið. Það hefur ekki verið svona lágt í áraraðir, lækkaði svona hratt strax í tíð vinstri stjórnarinnar sem segir náttúrlega til um áherslur hennar gagnvart suðvesturhorninu. Þess vegna vonast ég til að þær framkvæmdir verði til að hleypa lífi í framkvæmdir hér á suðvesturhorninu, ekki síst í þær greinar sem hafa verið hljóðar á undanförnum missirum, ég nefni jarðvinnuverktaka og fleiri.

Af hverju er ég smeyk? Ég er smeyk út af því, eins og flestir hafa bent á í ræðum á undan, að allar hagvaxtarspár sem við höfum verið að tala um í dag eru svartsýnni en hagvaxtarspá fjárlagafrumvarpsins og fjármálaráðuneytisins. OECD sýnir minni hagvöxt en fjárlagafrumvarpið. Hagstofa Íslands er með töluvert svartsýnni hagvaxtarspá. Evrópusambandið spáir því að hagvöxtur verði einungis um 0,7% en vel að merkja, fyrst var spáð 3,5% hagvexti á næsta ári en hann hefur hrapað niður í 1,9% samkvæmt fjárlagafrumvarpinu en þar gætir samt meiri bjartsýni en OECD segir, en ESB segir, upp á 0,7%, Hagstofan og nú síðast hagvaxtarspá Íslandsbanka sem birt var í gær. Auðvitað vonum við að þessar hagvaxtarspár gangi ekki eftir heldur frekar sú sem er í fjárlagafrumvarpinu og að hagvöxtur verði jafnvel enn meiri. En við þurfum þá að fara í að framleiða. Við þurfum að fara í það, frú forseti, að skapa störf. Öðruvísi verður ekki hagvöxtur og þess vegna skiptir máli að þeir sem eru í stjórnarmeirihlutanum, af því að þeir vilja ekki mikið hlusta á stjórnarandstöðuna, þó að þeir segist gera það á hátíðarstundum — þau vinnubrögð eru kannski ekki frábrugðin því sem var á árum áður en þá óska ég eftir því að stjórnarmeirihlutinn hlusti á þá sem hafa verið að tala fyrir atvinnulífinu innan stjórnarflokkanna. (Gripið fram í.)

Hvað fleira verður til þess að ég óttast að tekjuhlið fjárlaga standist ekki? Það er meðal annars út af því að við sjáum fram á skerðingu bótagreiðslna en álagning á skatttekjur frá Tryggingastofnun hefur verið einhver til ríkisins — og ekki bara litlar heldur töluverðar. En nú er verið að skerða bætur og það verulega og það þýðir um leið minni tekjur til ríkisins. Við verðum að taka tillit til þess.

Við sjáum líka t.d. þá áætlun sem menn hafa verið að benda á varðandi bensínsölu. Spár olíufyrirtækjanna eru að olíusala verði minni á næsta ári en ríkisvaldið gerir ráð fyrir. Það eru verulegar tekjur fyrir ríkisvaldið, ekki nema ríkisvaldið ætli sér að hækka bensínskattana enn frekar og er nú nóg og þá verður bara fínt að fá það fram. Við skulum átta okkur á því að ekki er nein tillaga í frumvarpinu um fjármögnun lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs. Við samþykktum frumvarp til fjárlaga nú í vikunni, ríkisábyrgð upp á, að mig minnir, 24 milljarða. Það er búið að samþykkja hana en hvar hefur verið gert ráð fyrir vaxtaskuldbindingum vegna þeirrar ríkisábyrgðar í frumvarpinu á næsta ári? Ég hefði haldið að samkvæmt góðum reikniskilavenjum ættum við að gera ráð fyrir vaxtaskuldbindingum vegna þeirrar ríkisábyrgðar. Ef við miðum við þá vexti sem Írar eru að fá í sínum erfiðleikum þá væri þetta að minnsta kost vaxtaskuldbinding upp á 1,5–2 milljarða. Það vantar gjaldamegin meðal annars þannig að ég er hrædd um að þetta standist ekki allt saman.

Sjúkratryggingar — svo að ég fari yfir það líka, yfir þann dulda halla sem er, og kemur fram í okkar áliti. Þar er gert ráð fyrir því af hálfu heilbrigðisráðuneytisins að ná fram 3 milljörðum í sparnaði í frumvarpinu en ekki er búið að segja hvernig á að útfæra það. Verður það kannski þannig að heilbrigðisráðherra kemur með eitthvað sem er algerlega ófært að framkvæma, lætur þetta bitna á þeim sem allir eru sammála um að það eigi ekki að bitna á þannig að allt verði dregið til baka? Það skiptir máli hvernig við útfærum svona tillögur og fáum þá alla vega einhverja nasasjón af því hvað heilbrigðisráðherra er að hugsa í þessum efnum því að hér er um háar fjárhæðir að ræða.

Frú forseti. Ég er hrædd um að tekjuhliðin standist ekki og að við komum jafnvel til með að horfa fram á enn frekari álögur á fjölskyldur og fyrirtæki á næsta ári en við sjáum fyrir í dag. Ég segi líka: Guð láti gott á vita þegar við heyrum tónana sem voru í umræðunni áðan um auknar framkvæmdir, t.d. í vegamálum, sem geta blásið einhverju lífi í atvinnulíf suðvestanlands.

Mig langar líka að koma inn á ýmsa aðra þætti, það eru heilbrigðismálin. Ég ætla ekki að verja mjög stórum hluta af ræðu minni í heilbrigðismálin. Farið hefur verið mjög gaumgæfilega yfir þá þætti og skiljanlega hefur reiði fólks á landsbyggðinni verið mikil því að ekki var búið að kynna þessar tillögur með neinum hætti áður en fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Vinnubrögðin eru áfellisdómur yfir ríkisstjórninni. Á fundi í fjárlaganefnd kom hver forstöðumaðurinn á fætur öðrum og allir sögðu það sama. Og algjör samhljómur var í orðum forstöðumanns á St. Jósefsspítala um vinnubrögðin og var í samtölum okkar við forstöðumenn heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Einhver hefði sagt, svo að vægt sé til orða tekið, að það væri bara skandall hvernig að þessu væri staðið. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við ör heilbrigðisráðherraskipti. Þetta eru sömu flokkarnir sem standa að þessum tillögum, bæði fyrir og eftir skiptin. Það var því hálfömurlegt og nöturlegt að hlusta á forstöðumenn heilbrigðisstofnana sem allir tóku fram að þeir væru tilbúnir í niðurskurð. Það var enginn að koma þarna vælandi á hnjánum, enginn. Allir höfðu gert ráð fyrir niðurskurði, allir. En hvernig að verki var staðið var hneisa og allt að því niðurlæging fyrir þær stofnanir sem um ræðir og þau svæði — tölum ekki um félagsauðinn sem á að verja samkvæmt sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar 20/20, samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Það átti sérstaklega að gæta að kynjaðri hagstjórn, þar með talið konum, og þeim búsetuháttum og byggðarlögum sem eru á landinu. Það var ekki gert. Það eitt hvernig fjárlagafrumvarpið var kynnt þeim sem áttu að sæta mestri skerðingu var hneyksli og ekki í anda þess gagnsæis sem verið er að krefjast og fara fram á.

Ég vil koma aðeins inn á St. Jósefsspítalann. Greinilegt er að eftir breytingar á milli 1. og 2. umr. er ein stofnun sem situr eftir með langmestan og alveg óbreyttan niðurskurð og það er St. Jósefsspítali í Hafnarfirði. Aðrar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni þurfa að sæta minni niðurskurði og það er vel. Ég vona að menn nýti þá tækifærið og móti heilbrigðisstefnu, ekki í einhverju panikkasti í fjárlögum til að koma einhverju saman og halda stjórnarflokkunum saman, heldur að menn setjist niður og reyni að vinna þetta markvisst eins og reynt var að gera fyrir tæpum tveimur árum. Þær áætlanir voru allar slegnar út af borðinu. Ég vona að mönnum auðnist það af því að við þurfum að fara í endurskoðun á heilbrigðiskerfinu. Ég held að allir hafi talað um það hér. En það verður ekki gert samhliða fjárlagafrumvarpinu. Við verðum að móta heilbrigðisstefnuna fyrst til að átta okkur á hvert við viljum fara og á hvaða forsendum. St. Jósefsspítali situr eftir með niðurskurðinn og það var ekki sagt í upphafi.

Á milli 1. og 2. umr. hefur komið fram af hálfu heilbrigðisráðherra, að það á að sameina þessar stofnanir, LSH og St. Jósefsspítala. Ég ætla ekki að vera á móti því ef hægt er að rökstyðja það með því að það eigi að vinna hlutina þar sem þeir eru hagkvæmastir. Ef það er á LSH á að vinna þá þar, en ef það er ódýrara á St. Jósefsspítala verða menn líka að kyngja því. Tölur sýna fram á að það er ekki endilega hagkvæmast að vinna þá hluti á Landspítalanum sem St. Jósefsspítali hefur byggt upp, þ.e. meltingarrannsóknir, grindarbotnsrannsóknir o.fl. varðandi konur — þar hefur þekkingin byggst upp markvisst með samhentum starfsmönnum inni á St. Jósefsspítala og þeirri þekkingu megum við ekki glutra niður í einhverju hasti í því að reyna að ná hagræðingu í ríkisrekstri eða sameina stofnanir. Við skulum bara sameina þær ef sú sameining leiðir til þess að við náum hagræðingu og náum að varðveita þekkinguna. Þekkingin og þekkingaröflunin er það sem mun verða okkar verðmætast innan heilbrigðiskerfisins og verða hluti af — einhver talaði um það áðan að þetta ætti hugsanlega að vera hluti af okkar útrás, þ.e. öflug heilbrigðisþjónusta. Við skulum þá ekki skjóta hana strax niður á þessu stigi og því hvet ég hæstv. heilbrigðisráðherra til að líta á þetta sem sameiningu en ekki sem yfirtöku. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu og líka eftir breytingar hjá meiri hluta fjárlaganefndar er ekki hægt að líta á þetta öðruvísi en svo að um algera yfirtöku LSH sé að ræða á starfsemi St. Jósefsspítala.

Ég vil hvetja menn á St. Jósefsspítala og Landspítalanum að tala saman og reyna að vinna þetta út frá hagsmunum heilbrigðiskerfisins, notendanna, en ekki að þetta sé einhliða yfirtaka stóra spítalans. Við höfum ekki efni á því að missa þá þekkingu niður sem byggð hefur verið upp og búið er að gera úttekt á. Ég hvet menn því til að fara varlega í þessu þó að við gerum okkur að sjálfsögðu grein fyrir því að ætlast er til að ákveðinni hagræðingu verði náð innan heilbrigðiskerfisins. St. Jósefsspítali hefur ekkert verið að veigra sér við það, ekki frekar en aðrar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni þannig að þessu geld ég varhuga við.

Eldri borgarar og öryrkjar — hvað kom í ljós á árinu 2010? Hvað gerðist þar þegar breytingarnar voru settar inn í bótakerfinu, í fjáraukalögum ársins 2010? Þá kom nefnilega í ljós að ákvarðanir ríkisstjórnarinnar skertu kjör aldraðra og ekki bara um þessa 7 milljarða sem menn voru búnir að tala um heldur um 4 milljarða til viðbótar, umfram það sem var gert í fjárlögum þess árs. Ætla menn síðan að segja að ekki þurfi að fara í endurskoðun á bótakerfinu, stoppa upp í göt, reyna að ná samlegðaráhrifum í kerfinu, útrýma kostum þess en líka göllum? Auðvitað þarf að gera það. En það er merkilegt hvernig menn ætla að reyna að fjármagna þann minni niðurskurð sem er á milli umræðna, það er meðal annars af því að menn ætla að seilast í Framkvæmdasjóð aldraðra og skerða öldrunarþjónustu. Það er leiðin sem er verið að leggja til í þessu máli.

Málaflokkur fatlaðra flyst yfir og það er gott. Það er hins vegar mjög merkilegt að búið er að ræða um þetta, eins og hv. þm. Kristján Möller gat um áðan, í áraraðir. Þess vegna kemur á óvart sú niðurstaða sem Ríkisendurskoðun setti fram í skýrslu sinni í ágúst minnir mig um að undirbúningi væri ekki nægilega vel háttað. Hann væri ekki kominn nægilega vel á veg. Það er merkilegt miðað við að við höfum lengi vitað að málaflokkur fatlaðra færist yfir núna um áramót. Ég spyr: Hvar hafa félagsmálaráðherrar þessarar ríkisstjórnar og fyrri verið? Hvar var félagsmálaráðherrann Jóhanna Sigurðardóttir? Var hún ekkert að undirbúa þennan málaflutning eða aðrir félagsmálaráðherrar sem hafa verið? En ég hef nálgast þetta mál þannig, og ræddi meðal annars um það þannig í utandagskrárumræðu, að það er búið að taka þessa ákvörðun og það skiptir máli að um þennan málaflokk verði ekki rifist, að við sameinumst um að gera þennan flutning sem bestan úr garði. Og þá þurfum við að haska okkur á þingi. Við þurfum vanda vel til verka núna þegar frumvörpin um málefni fatlaðra eru til umfjöllunar í nefndum þingsins og við þurfum að passa upp á að hlutirnir verði réttilega framkvæmdir.

Ég tek undir það sem ég greindi meðal annars hjá fulltrúum sveitarfélaganna, sem komu á fund hv. fjárlaganefndar, og líka í máli annarra þingmanna, að næsta skref þegar flutningi málefna fatlaðra væri lokið væri að fara í það að skoða flutning á öldrunarþjónustu. Ég held að það yrðu ákveðin samlegðaráhrif þar, að það sé hagkvæmni fyrir sveitarfélögin að reyna að bera ábyrgð á rekstri þessara tveggja málaflokka, þ.e. málefnum fatlaðra og aldraðra. Krafa samfélagsins í dag — við sjáum það meðal annars á grunnskólunum — er að nærþjónustan verði til staðar. Þá er það sveitarfélaganna að sjá til þess að hún verði til staðar, að sinna þessari þjónustu. Ég tel að passað sé upp á það að góðra manna yfirsýn að þeir fjármunir sem flytjast yfir með málaflokknum verði til að standa undir þeirri þjónustu sem fatlaðir þurfa á að halda þegar málefnið er komið yfir á herðar sveitarfélaganna. Það skiptir máli að gæta að því að svo sé.

Menntamálin — það vekur athygli í byrjun að þó að menn hafi ætlað að gæta að því að skerða ekki mikið háskólamálin og rannsóknir þá er engu að síður verið að gera það. Það er hins vegar vel, og ég vil draga það fram, að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur greinilega reynt að gera eins vel og hægt var innan þess ramma sem honum var ætlaður. En engu að síður blasir það við að verið er að skera verulega niður í háskólamálum, rannsóknum og vísindum. Þá kynnu margir að segja: Það er ekki hægt að komast hjá því að skera niður í menntamálum eins og í heilbrigðismálum. Það er sjónarmið. En ef við skoðum söguna og hvað það er sem við þurfum að gera til að byggja upp hagvöxt þá sýnir það sig að það að byggja upp menntakerfið leiðir af sér sprotafyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki. Við þekkjum það úr Íslandssögunni, við þekkjum Marel og Össur og fleiri fyrirtæki sem hægt væri að nefna, fyrirtæki sem hafa sprottið úr þessu umhverfi vísinda og rannsókna og samvinnu háskólanna. Þetta er leið til að koma okkur fyrr út úr efnahagslægðinni, þetta er leið sem undirbyggir það að við komumst hraðar í aukinn hagvöxt eins og menn reyndu að gera í Finnlandi á sínum tíma. Það skiptir því máli að við sameinumst um það á þingi að reyna að gera þetta sem bærlegast fyrir háskólana.

Ég horfi á Háskóla Íslands. Það eru 1.400 nemendur sem Háskóli Íslands fær ekki greitt fyrir, 1.400 nemendur. Ég hefði heyrt ramakvein á árum áður ef maður hefði lagt það til. Í þessum tillögum á milli umræðna var bætt við 141 millj. kr., sem þýðir um 200 nemendur. Þegar upp er staðið eru það um 1.200 nemendur sem Háskóli Íslands þarf að taka án þess að fá greitt fyrir.

Það lætur mig standa eftir með spurninguna: Er það þá pólitísk menntastefna að þjappa fólki í háskólana? Allir þeir sem vilja eiga þá að fara inn í háskólana, í ljósi atvinnuleysisins. Það er ákveðin leið og það er ákveðið sjónarmið. En þá verður að gæta að því að fjármagn fylgi með út af því að annars erum við að fara gegn annarri meginstefnu sem á að ríkja og hefur ríkt innan háskólakerfisins en það er krafa um aukin gæði. Ef við þjöppum svona áfram hlýtur það að bitna á einhverju og það bitnar á gæðunum innan háskólanna. Þá verðum við að þora að segja: Já, við ætlum að þjappa inn í skólann þó að fjármagn flytjist ekki með. Það kann að bitna á gæðum. Eða við verðum að segja: Við ætlum að takmarka aðgang að háskólunum af því að við ætlum að standa vörð um gæðin. Við viljum ekki gefa eftir eða neinn afslátt á því gæðastarfi sem verður að eiga sér stað á sviði kennslu og rannsókna. Þetta er ekkert auðvelt fyrir stjórnmálamenn, hvað þá ráðherra menntamála eða fjármála, að segja en þetta er það sem menn standa frammi fyrir þegar við sjáum þann þrönga stakk sem Háskóla Íslands er skorinn.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt áherslu á mun meira samstarf og að fara í auknar sameiningar. Þetta er einmitt tíminn sem við eigum að nýta til að fara í slíkt og við eigum óhikað að tala um það. Samstarfsnetið er skref í rétta átt en það verður þá að vera markvisst og því verður að vera fylgt eftir af hálfu ráðuneytisins að samstarfið verði raunverulegt en það sé ekki leið til að bæta við fjárframlögum til ríkisháskólanna, að verið sé að fara fjallabaksleið til að styrkja ríkisháskólana umfram einkaháskólana. Þess vegna verður að tryggja að samstarfið dýpki með samstarfsnetinu. Ég treysti hæstv. menntamálaráðherra svo sannarlega til að fylgja því eftir.

Ég velti því líka fyrir mér, og því miður er allt of knappur tími eftir af ræðu minni, sem er stórpólitískt mál, var mikið rætt á árum áður og við stöndum frammi fyrir — sem betur fer er komin ný löggjöf á öllum skólastigum, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla, rammalöggjöf og allt þetta. Við þekkjum þetta allt og það var meðal annars gert með það að markmiði að við ætlum að fjölga þeim sem útskrifast á þremur eða þremur og hálfu ári eftir stúdentspróf. Þetta er einmitt tíminn. Þegar við stöndum frammi fyrir ákveðnum þrengingum og áskorunum um að hagræða í ríkisrekstri þá eigum við að fara þessa leið. Ríkisvaldið sparar mörg hundruð milljónir, jafnvel milljarða ef þeim fjölgar verulega sem útskrifast á þremur eða þremur og hálfu ári eftir stúdentspróf. Við eigum að halda áfram á þeirri leið sem hefur verið mörkuð og það var ætlunin á árinu 2011, 2012 og 2013 að reyna að gera þetta enn markvissara, enda er Menntaskólinn í Borgarnesi orðinn þriggja ára, og við sjáum Menntaskólann í Mosfellsbæ. Það er því vel hægt á grundvelli þess kerfis sem fyrir er fyrir utan þann þjóðfélagslega sparnað sem fylgir þessu.

Þetta kann líka að vera eitt af þeim málum sem stjórnmálamenn vilja ekki taka á af því að það er ekkert endilega fallið til vinsælda, það var það ekki fyrir nokkrum árum. En þetta er engu að síður pólitísk spurning sem ég tel að við sem hér erum inni eigum að spyrja okkur, við eigum að leita allra leiða til að ná hagræðingu í ríkisrekstri. Ef við viljum um leið standa vörð um öfluga velferðarþjónustu er þetta spurning sem við getum ekki látið hjá líða að svara. Við sjálfstæðismenn viljum halda þessu áfram því að leiðin er til. Það er búið að undirbúa þetta allt. Allt liggur fyrir og við erum tilbúin til að halda þessu áfram og okkur á ekki að verða skotaskuld úr því. Við erum eina þjóðin innan OECD-ríkjanna sem útskrifar nemendur tvítuga þannig að við eigum hæglega að geta gert þetta. Það er allt tilbúið til að fara í þennan leiðangur, búið að taka mörg ár í að undirbúa þetta. Þess vegna á hæstv. fjármálaráðherra að hvetja til þess að þetta verði gert, nema menn þori ekki að taka slaginn við hagsmunasamtök. Það er annað mál og vel þekkt.

Frú forseti. Það á margt eftir að segja í þessu. Ég vil engu að síður ljúka orðum mínum á því að þakka fyrir ágætt samstarf í fjárlaganefnd. Ég vona að stjórnin þar horfi til betri vegar en áður var. Við sjálfstæðismenn munum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að vinnubrögðin í kringum fjárlagagerðina verði til lengri vandaðri en við höfum staðið frammi fyrir á þessu ári. Ég vona svo sannarlega að við náum að skilja við þetta mál á þann veg að það verði til hagsbóta fyrir land og þjóð.