139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

aukin verkefni eftirlitsstofnana.

240. mál
[12:25]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að stefnan sé ekki umdeild, ég held að að minnsta kosti á umliðnum árum, eins og ég hef fylgst með þessu, og núna séu menn allir af vilja gerðir og almennt sé samstaða um það þvert yfir allar pólitískar línur að menn vilji, eftir því sem mögulegt er, að slík verkefni sé hægt að vinna óháð staðsetningu og þá ekki síður á landsbyggðinni en hér á þéttbýlissvæðinu. Ég lít svo á að Sóknaráætlun 20/20, af því að hún var nefnd, sé einmitt angi af sömu hugmyndafræði, að byggja upp og efla svæðin þannig að þau verði burðugar einingar til að takast á við fleiri verkefni. Inni í þeirri hugmyndafræði er mjög mikið talað um svonefnt onestop-kerfi eða einn viðkomustað, þ.e. að reyna að færa þjónustu saman þannig að notendur eigi þess kost almennt að koma þá á einn stað og fá úrlausn sinna mála. Það má auðvitað segja að rafræn þjónusta sé slíkur einn viðkomustaður því að þá ertu að fara á einn stað, á netið og yfir það. Möguleikarnir þar eru geysilegir þannig að Sóknaráætlun 20/20, þess vegna færsla málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga, getur allt verið liður í þessu ef menn horfa þannig á það.

Ég nefndi rafrænu skilríkin áðan og sem dæmi má nefna að með tilkomu slíkra skilríkja væri hægt að sjá fyrir sér að innan fárra ára væru t.d. allar þinglýsingar gerðar rafrænar með gríðarlegu hagræði fyrir þá sem í hlut eiga. Þar með væri vinnan orðið ótengd því að eiga efnislega snertingu við notandann þannig að í þessu geta falist miklir möguleikar.

Ég nefni loks fjarnámið og allt sem snýr að menntuninni og möguleikunum þar. Því miður hafa menn þurft að rifa aðeins seglin í því en engu að síður er sú þróun sem þar hefur verið mjög ánægjuleg. Maður sér fjölmörg dæmi þess. Ég þekki það úr minni fjölskyldu. Einn af sonum mínum var í framhaldsnámi í Reykjavík í framhaldsskóla en jafnframt í fjarnámi í Framhaldsskólanum á Höfn í Hornafirði og í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Þar voru kennarar og starfsmenn sem aðstoðuðu hann á ólíkum landshornum.