139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

fjölgun öryrkja.

239. mál
[13:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef margsinnis nefnt það í þessum ræðustól að á bak við tölur og prósentur sem við fáumst við í fjárlagagerð og þingstörfum er fólk hringinn í kringum landið og ber að taka tillit til þess við þær breytingar sem fram fara í þessari ágætu stofnun sem heitir Alþingi.

Orðið atvinnuleysi hefur borið á góma stofnunarinnar á undanförnum vikum og mánuðum. Eðli málsins samkvæmt mun það vera í kringum 7%, öllu minna en spár gerðu ráð fyrir og er það vel. Engu að síður er á bak við hvert prósent atvinnulauss fólks um 1.650 manns. Það ber að hafa í huga.

Ég vil hins vegar ræða einn anga atvinnuleysisins sem er að margra mati fjölgun öryrkja. Það segja margir sem til þekkja að í miklu atvinnuleysi fjölgi öryrkjum og það sé samhengi á milli þessara tveggja atriða.

Á hverju ári koma um 1.600 Íslendingar nýir á vinnumarkaðinn og þurfa á atvinnu að halda. Eftir því sem Vinnumálastofnun hefur sagt þeim sem hér stendur hefur öryrkjum fjölgað á hverju ári um álíka tölu eða um 1.300 manns. Ég kem upp og leita staðfestingar á þessari tölu við hæstv. heilbrigðisráðherra. Þetta eru háar tölur og ber að rýna í þær vegna þess að það er ekki sjálfgefið að í okkar ágæta samfélagi fjölgi öryrkjum álíka mikið og Íslendingum fjölgar á vinnumarkaðnum á hverju ári. Samhengið á milli atvinnuleysis og fjölgun öryrkja ber að skoða. Ég beini því til ráðherra að það verði gert.

Ég velti fyrir mér úrræðum fyrir öryrkja hér á landi. Ýmiss konar virkniúrræði eru til staðar, fjölmörg tækifæri til menntunar svo hægt sé að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Þessi úrræði eru mikilvæg. Blessunarlega hefur það verið svo á undanförnum vikum og mánuðum að dregið hefur úr fjölgun öryrkja hér á landi eftir því sem viðeigandi stofnanir hafa tjáð þeim sem hér stendur. Engu að síður ber að horfa í þessa tölu. Er rétt að öryrkjum hafi að jafnaði fjölgað um 1.300 manns hér á landi á sl. 10 árum? Hverjar eru helstu ástæðurnar fyrir því?