139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

makríldeila við Noreg og ESB.

[10:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Árum saman hafa Evrópusambandið og Norðmenn gengið fram af mikilli hörku og óbilgirni gagnvart okkur varðandi makríldeiluna svokölluðu. Lengst af fengum við ekki heimild til að ræða þessi mál á eðlilegum vettvangi þrátt fyrir að við hefðum til þess ótvíræðan lagalegan rétt. Síðan hafa þeir með þessu fótumtroðið rétt okkar sem strandríkis sem er auðvitað mjög ámælisvert. Viðræður hófust á þessu ári en þar var okkur mætt sömuleiðis af mikilli hörku og óbilgirni. Það sést m.a. á því að nú hafa Evrópusambandið og Norðmenn tekið einhliða ákvörðun um að úthluta sjálfum sér makrílkvóta sem er hér um bil allur úthlutaður afli miðað við ráðleggingar Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Þeir gera ráð fyrir því að Færeyingar, Rússar og við eigum að veiða 62 þús. tonn af makríl sem er einn fjórði af því sem við veiddum á þessu ári.

Í annan stað hefur Evrópusambandið núna bætt gráu ofan á svart með purkunarlausum hótunum í okkar garð. Sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, sérfræðingur í femínískum bókmenntum, Maria Damanaki, greindi frá því að hún hefði innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins rætt leiðir til að takmarka landanir Íslendinga á makríl í ESB-höfnum. Það getur vel verið að þetta hafi ekki mikla praktíska þýðingu í sjálfu sér en þarna fer hins vegar ekki á milli mála að það er verið að hóta okkur, það er verið að reyna að kúga okkur og beygja í þessu mikilvæga máli.

Nú spyr ég hæstv. utanríkisráðherra: Hvernig verður brugðist við þessu af hálfu íslenskra stjórnvalda? Verður þessu með einhverjum hætti mótmælt og mótmælum okkar gagnvart Evrópusambandinu komið á framfæri í sambandi við þessar purkunarlausu hótanir? Ég spyr jafnframt hæstv. ráðherra hvort hann telji að þetta muni hafa áhrif á aðildarviðræður okkar við Evrópusambandið.