139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[11:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í vaxandi mæli detta ofan af himnum alls konar framkvæmdir og enginn borgar þær. Þetta er eitt af því. Ég fullyrði að þetta stenst ekki stjórnarskrá því að ekki má skuldbinda ríkissjóð nema með fjárlögum eða fjáraukalögum. Þetta er skuldbinding því að fjármálaráðherra framtíðarinnar verður að leggja þessa skatta á, hann kemst ekki hjá því.

Síðan vildi ég spyrja um Íbúðalánasjóð, hvort hann sé inni í þessum pakka varðandi 6 milljarðana frá fjármálafyrirtækjunum, hann er jú fjármálafyrirtæki og þar kæmi þetta út og inn og þá verður að gera ráð fyrir gjöldum annars vegar.

Svo vildi ég spyrja út í liðinn um Bíó Paradís sem er einkafyrirtæki hér í bæ. Það fær 10 milljónir, ég las óvart 10 milljarðar en þarna eru 10 milljónir. Ég spyr um áhrif þessa á samkeppni við önnur bíó. Af hverju fá ekki öll bíó svona og af hverju fá ekki bara allir skemmtistaðir svona líka?