139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki tekið undir með hv. þingmanni um að undirbúningur fjárlaga hafi verið með svipuðum hætti og verið hefur. Ég sagði þvert á móti að hæstv. fjármálaráðherra hafi gengið lengra en áður hefur verið gert með að gefa þingmönnum færi á að koma að sjálfum undirbúningnum. Við höfum þannig verið enn upplýstari en menn hafi verið áður.

Um hinar stóru línur sem hv. þingmaður spurði um. Það breytir því ekki að það geta verið einstök atriði í frumvarpinu sem þingmenn hafa ekki verið upplýstir um eða koma öðruvísi fram en þeir áttu von á. Þess vegna hafa þingmenn stjórnarliðsins alveg eins og stjórnarandstöðunnar fullt frelsi til þess að gera athugasemdir og koma með ábendingar um einstaka þætti þó að maður vænti þess að það standi allir að afgreiðslu frumvarpsins í heild sinni. Ég held út af fyrir sig að þetta ætti að svara spurningunum. Ég sé ekki að þetta sé neitt sérstakt vandamál á milli stjórnarflokkanna þó að einn þingmaður hafi lýst því yfir að hann hyggist ekki styðja frumvarpið.

Um veggjöldin get ég einfaldlega tekið undir sjónarmið hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vísaði til. Ég held að þessi tala, 7 kr. á hvern ekinn kílómetra, sé ekki hugmynd sem nokkrar líkur sé á að sátt takist um. Menn eigi a.m.k. langt í land í umræðum að þessu leyti.