139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:25]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir því að hæstv. fjármálaráðherra tók fram í framsögu sinni áðan að allir þeir sem hafa komið að lausn þessa máls hafa gert sitt besta og lagt málinu gott eitt til. Ég get tekið undir það. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það hafi mörgum mistekist fram til þessa. Þeim gekk gott eitt til en afurðin var hins vegar alveg ómöguleg. Það var hún í fyrsta Icesave-samkomulaginu og hún var að mínu áliti enn þá ómöguleg í öðru Icesave-samkomulaginu.

Nú erum við komin með málið í allt annan búning. Við erum enn þá í þeirri stöðu að ég tel okkur ekki hafa lagalegar skuldbindingar til að gera eitt eða neitt. Það á að vera ískalt mat okkar á þinginu hvað þjónar íslenskum hagsmunum best við þessar aðstæður. Ég vil taka tíma í þá skoðun og ég veit að margir hér, bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar, eru sammála í þeirri nálgun.