139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:49]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vill þannig til að þegar maður er að leiða fram þessa tölu sem er 432 milljarðar kr., ekki 440 og eitthvað, bara til að halda algjörlega samhengi í hlutunum, eru þetta einfaldlega tvær tölur. Önnur er reiknuð út af samninganefndinni og birtist í skjölum og allir eru með á takteinum, 47 milljarðar kr. Hin talan birtist í viðauka við það frumvarp sem hv. þingmaður samþykkti á sínum tíma og er mat fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins á hvers virði sá samningur er. Síðan þarf ekki meiri hagfræðing en það að maður þarf að geta dregið 47 milljarða kr. frá útkomunni sem er þar. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það þyrfti meiri háttar reiknikúnstir til að geta fengið upphæð sem næmi um 5 þús. milljörðum kr. Hvert barn sem er búið með einfalt fyrsta námskeið í samlagningu og frádrætti á að geta fengið þessa tölu, það eina sem það þarf eru upplýsingarnar frá samninganefndinni og upplýsingar frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.