139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[11:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Á Íslandi lifa sennilega um 20 þús. manns ákveðnu skuggalífi. Þeir eiga ekki kreditkort, þeir eiga ekki debetkort og þeir eru ekki í viðskiptum við banka. Þetta er fólk sem hefur lent í árangurslausu fjárnámi en ekki gjaldþroti og það svífur um neðan jarðar. Það má ekki vinna því að þá er gert fjárnám í laununum og það vinnur sem sagt svart. Þetta fólk er ekki þátttakendur í venjulegu lífi og kraftar þess og þekking fara forgörðum.

Þetta frumvarp nær alls ekki til þessa fólks. Þetta frumvarp gengur allt of skammt og auk þess vil ég benda á að maður sem vill fara í gjaldþrot á engar 250 þús. kr. (Gripið fram í: Rétt.) Ef hann ætti 250 þús. kr. væri búið að ná þeim af honum. Þetta frumvarp gengur allt of skammt og ég get ekki samþykkt það þó að það sé gott fyrir þennan litla hóp vegna þess að það byggir upp væntingar sem ekki er staðið við.