139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[15:29]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Á tímum sem þessum, þegar við erum að fara að samþykkja svo mikilvæg mál og af jafnmikilli einurð og núna í dag, er ágætt að minna stundum sjálfan sig og aðra á hvað við erum í raun og veru að gera. Við erum loksins að hrinda í framkvæmd stefnumiði sem er búið að vera á dagskrá mjög lengi. Þetta snýst ekki bara um að færa einhvern málaflokk á milli stjórnsýslustiga. Þetta snýst líka um hugmyndafræði. Þetta er birtingarmynd þess að við teljum að málaflokkur fatlaðs fólks eigi betur heima í nærumhverfinu, eigi betur heima hjá sveitarstjórnunum. Við erum að færa þennan málaflokk nær fólkinu. Það er mikilvægt stefnumið og mjög merkilegt að við séum loksins að gera þetta núna.

Ég vil leggja áherslu á að þetta er ekki endapunktur, þetta er líka upphaf. Eins og kemur fram í frumvarpinu sem við erum að samþykkja þá ætlum við auðvitað að vera með miklu betri lög um málefni fatlaðs fólks 2014 en núna. (Forseti hringir.) Þetta er því upphaf og endapunktur sem skilgreinist þá væntanlega sem tímamót. (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Húrra.)