139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar maður ákveður eða kona ákveður að fresta neyslu til þess að spara verður hún að hafa traust á því að sparnaðurinn dugi til neyslu seinna meir og þá verður hún að hafa traust á því ef hún ætlar að fjárfesta í hlutabréfum t.d. fyrir þennan sparnað að hann sé ekki skattlagður undir drep, að hún fái einhvern tímann sparnaðinn til baka.

Þau teikn sem menn gefa hérna með óstöðugu skattkerfi eins og ég gat um, 10, 15, 18 og 20%, eru teikn um það að menn ætla sér að halda áfram og láta ekki segjast þrátt fyrir að það séu eiginlega engin viðskipti með hlutabréf í dag. Það er ekkert að gerast, það er algjör stöðnun, það er algjör doði og hv. þingmaður leyfir sér að horfa fram hjá því sem formaður hv. efnahags- og skattanefndar Alþingis. Hann horfir líka fram hjá því að verið er að skattleggja, að röðin, talnaröðin 15, 18, 20% á hagnað fyrirtækja er nákvæmlega sama teiknið. Svo hefur hæstv. fjármálaráðherra gefið það út svona til þess að hrella menn enn meira: Þið hafið ekki séð allt — hann sagði það reyndar á ensku — þið hafið ekki séð allt enn þá. (Gripið fram í: Kannski var hann bara að tala við erlenda fjárfesta.) Ég veit það ekki, hann ætlar kannski að hræða þá frá, það er kannski markmiðið. Það er eins og menn séu kerfisbundið að vinna gegn því að hér skapist fjárfesting og hér skapist atvinna og mér finnst þetta alvarlegt.

Hv. þingmaður sagði að í útlöndum væru víða hærri skattar á hagnað og fjármagnstekjur. Það er rétt, en þar er líka stöðugt verðlag og mjög, mjög lágir vextir. Menn fara því út í hlutabréf sem valkost við mjög lága og lélega fjárfestingu í sparifé, þannig að þetta hangir allt saman, frú forseti. — Er eitthvað að?

(Forseti (ÁI): Klukkan í borðinu er ekki rétt, hún telur ekki niður heldur upp, þannig að hv. þingmaður er búinn með tímann.)

Ég ætlaði að gleðjast yfir því að eiga nægan tíma eftir.