139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[23:40]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil koma aðeins inn í umræðuna til að koma því sjónarmiði að, að ég tel og hef raunar sagt það áður, að með frumvarpinu er í rauninni verið að breyta andlagi til skattlagningar á bifreiðum. Við erum að flytja okkur frá því að skattleggja fyrst og fremst þyngd bifreiða og stærð á hreyfli yfir í að skattleggja losun á kolefni sem er grundvallaratriði.

Ýmislegt hefur verið rætt í umræðunni í dag. Ég ætla ekki að fara út í öll þau mál en vil þó aðeins nefna það sem kom fram um notkun á eldsneytinu sem kallað er metan eða CH 2 . Eins og þingmönnum er vafalítið mörgum kunnugt verður svokallaður hreinn bruni við bruna á metani. Þetta skiptir afar miklu máli því við bruna á metani myndast eingöngu koltvísýringur og vatn. Metan sjálft, óbrunnið, er afar öflug gróðurhúsalofttegund. Þess vegna er afar mikilvægt að metan sem fellur til sé brennt með þessum hætti til að tryggja að það valdi ekki óþarfa mengun.

Það er áhugavert sem kom fram í ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals rétt áðan að við vitum ekki nægilega vel hversu kostnaðarsamt er eða hversu erfitt það er að uppskera það metan sem fellur til, ef við getum sagt sem svo. Í því sambandi vil ég benda á þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram í þinginu af Arndísi Soffíu Sigurðardóttur sem ég meðal annarra er meðflutningsmaður á. Hún fjallar einmitt um að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir aukinni og markvissri metanframleiðslu og skoða með hvaða hætti er hægt að nýta þennan innlenda orkugjafa og spara þannig gjaldeyri og minnka losun á óheppilegum gróðurhúsalofttegundum. Ég tek það hins vegar fram sem ég sagði áðan og er alveg rétt að við vitum ekki nákvæmlega hversu mikið það kostar. Víða erlendis hafa menn hins vegar talið að metan sem fengið er úr til að mynda fjóshaugum og seyru, „harvested“ á ensku, sé sérlega einföld og tiltölulega ódýr aðferð. Væri það hægt, til að mynda á búum landsins, gæti það verið enn ein leiðin til að auka sjálfbærni íslenskra búa og íslensks landbúnaðar og gæti því verið dýrmætt innlegg í það sem við köllum græna og umhverfisvæna ferðaþjónustu. Ef það gengi eftir væri það vel.

Fyrst og fremst árétta ég þetta: Ég tel að hér sé á ferðinni afar góð hugsun og góð breyting. Ég get að vísu tekið undir að sumar af undanþágunum eru líklega óþarfar en grundvallarhugsunin í frumvarpinu snýst ekki um það, heldur snýst hún um að breyta hugmyndafræðinni og ég tek undir það.