139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[18:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við höldum áfram umfjöllun um frumvarp til samkeppnislaga sem rætt var nokkuð á þinginu fyrir allmörgum vikum. Ég hygg að það hafi verið einhvern tíma í nóvember að 2. umr. um frumvarpið hófst og við hefjum nú leik að nýju.

Það atriði sem helst var til umræðu og deilt var um þegar við skildum við málið í fyrri hluta 2. umr. var ákvæði sem er að finna í frumvarpinu um að samkeppnisyfirvöld hafi heimild til að breyta skipulagi fyrirtækja, þar á meðal að skipta þeim upp án þess að leitt hafi verið í ljós að viðkomandi fyrirtæki hafi gerst sek um brot á lögum. Ég tók örlítinn þátt í þeirri umræðu og fleiri hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins við það tækifæri og við gerðum athugasemdir við þetta atriði vegna þess að um er að ræða afar róttækt úrræði sem við höfum áhyggjur af að geti í rauninni orðið skaðlegt fyrir íslenskt atvinnulíf.

Við erum að tala um tilvik þar sem samkeppnisyfirvöld hafa ekki sýnt fram á einhvers konar brot, misnotkun á markaðsráðandi stöðu eða annað þess háttar. Við erum að tala um tilvik þar sem mat samkeppnisyfirvalda lýtur að því að heppilegra væri fyrir öfluga samkeppni á markaði að fyrirtæki væru byggð upp með öðrum hætti, hugsanlega að stærri fyrirtækjum yrði skipt upp og annað þess háttar. Ég velti því fyrir mér hvort ríkisvaldið sé hugsanlega að ganga of langt miðað við það sem eðlilegt má teljast.

Ekki er ágreiningur um stór fyrirtæki sem hafa sterka stöðu á markaði og brjóta af sér eða misnota stöðu sína. Þá á að vera hægt að beita þau viðurlögum og úrræðum sem samkeppnislög fela samkeppnisyfirvöldum. Það er ekki ágreiningur um það. Ef hægt er að sýna fram á að fyrirtækin misnoti stöðu sína á að vera hægt að refsa þeim fyrir það, þá á að vera hægt að knýja þau til að breyta háttsemi sinni með virkum aðgerðum samkeppnisyfirvalda. Um það er ekki ágreiningur. Þetta mál snýst ekki um það. Þetta snýst um að jafnvel þótt ekki sé nein misnotkun fyrir hendi, sem hægt er að sýna fram á, geti samkeppnisyfirvöld haft mjög afgerandi og afdrifarík áhrif á skipulag og uppbyggingu fyrirtækja. Það er á þeim punkti sem ég tel að frumvarpið gangi of langt og mun ég ekki geta stutt það á þeim forsendum.

Ég vil líka minna á, hæstv. forseti, að samkeppnisyfirvöld hafa möguleika á því að beita úrræðum þegar um er að ræða samruna fyrirtækja, yfirtökur og annað þess háttar. Þar eru fyrir hendi ákveðin úrræði sem samkeppnisyfirvöld hafa til að banna samruna eða setja samruna ýmis skilyrði, þess vegna afar ströng, og er ekki sérstakur ágreiningur um þau. Með þeim hætti geta samkeppnisyfirvöld gripið inn í uppbyggingu fyrirtækja í þeim tilgangi að stuðla að aukinni samkeppni á markaði. Slík úrræði eru hins vegar vægari en það sem lagt er til í þessu frumvarpi að því leyti að þar eru ekki höfð afskipti af eða krafist breytinga á fyrirkomulagi sem er til staðar heldur er verið að hindra eða setja skilyrði fyrir tilteknum breytingum sem verða. Í þeim skilningi verð ég að segja að mér finnst inngripið af hálfu hins opinbera á slíkum tímapunkti ekki eins íþyngjandi og þar af leiðandi ekki eins alvarlegt og ef höfð eru afskipti af starfsemi fyrirtækja sem þegar eru starfandi og krafa gerð um að þau geri róttækar breytingar á uppbyggingu sinni.

Þetta eru svona meginsjónarmið í þessu sambandi. Um leið og fyrirtæki þurfa að sjálfsögðu að fylgja leikreglum samkeppnislaganna og samkeppnisyfirvöld hafa þær heimildir sem þau hafa til að beita viðurlögum og ýmsum úrræðum ef ekki er farið að leikreglunum, ef fyrirtæki misnota t.d. markaðsráðandi stöðu eða gerast sek um samráð eða eitthvað þess háttar, þá á ekki að setja slíkt vald í hendur opinberrar stofnunar að hún geti ákveðið að breyta uppbyggingu fyrirtækja þegar þau hafa ekki brotið neitt af sér. Í því sambandi vil ég segja fyrir mig að eðli samkeppnisreglna eigi að vera með þeim hætti að þær séu einhvers konar leikreglur á markaði, eins og umferðarreglur, þær eigi að þjóna þeim tilgangi að koma í veg fyrir að menn brjóti hver á öðrum og eigi að hafa að geyma úrræði ef menn brjóta hver á öðrum. Mér finnst samkeppnisreglur hins vegar ekki eiga að fela í sér að segja mönnum fyrir um hvert þeir eigi að fara. Það á ekki að ákveða við skrifborð einhverra opinberra embættismanna, hversu ágætir sem þeir kunna að vera, hver stefna fyrirtækja eigi að vera, hvernig þau séu byggð upp og hvernig strúktúr þeirra sé að öðru leyti. Í mínum huga eru það ekki eðlileg afskipti. En ef fyrirtæki misnota aðstöðu sína, eins og dæmi eru um, ef þau hafa samráð, ef þau beita smærri keppinauta eða einhverja keppinauta ofríki þá á slíkt að vera ólögmætt og krefst einhverra aðgerða. En forsenda þess að samkeppnisyfirvöld grípi til íþyngjandi aðgerða gegn fyrirtækjum eiga að vera einhver slík brot. Það á í sjálfu sér ekki að vera glæpur í atvinnurekstri að fyrirtæki séu stór, en ef stór fyrirtæki misnota aðstöðu sína þá er nauðsynlegt að bregðast við því. Sú grundvallarhugsun finnst mér að þurfi að komast inn í umræðuna. Það hefur verið ákveðið meginprinsipp t.d. í evrópskum samkeppnisrétti að í sjálfu sér sé ekki glæpur að vera stór heldur eigi að beita sér á tveimur punktum, annars vegar gagnvart misnotkun á markaðsráðandi stöðu og hins vegar varðandi samráð. Það eru þau atriði sem helst hafa verið í skotlínu evrópskra samkeppnisyfirvalda. En að knýja fram breytingar með opinberum ákvörðunum hjá fyrirtækjum sem ekki hafa með neinum sannanlegum hætti framið brot er aðferðafræði sem ég get ekki tekið undir.

Ef ég man rétt var þannig skilið við þetta mál í 2. umr., eða þegar fyrstu ræðumenn höfðu talað um málið í nóvember, að það kæmi til umræðu aftur í hv. viðskiptanefnd milli 2. og 3. umr. Í hv. viðskiptanefnd, ég tek fram að ég á ekki sæti þar sjálfur en nefndarmenn eru hér viðstaddir þannig að ég get beint orðum mínum til þeirra, held ég að þetta atriði þarfnist nokkuð góðrar skoðunar. Í því sambandi verður að hafa í huga að þegar ákvæði af þessu tagi er sett inn eða verði ákvæði af þessu tagi sett inn er um að ræða afar matskennt ákvæði, ákvæði sem er mjög opið, orðalag þess er mjög opið og hægt að túlka það mjög vítt ef svo ber undir. Ákvæðið sjálft veitir mjög litla leiðbeiningu um hvernig því skuli beitt og ég ráðlegg hv. viðskiptanefnd að skoða það sérstaklega út frá því hvort nefndin geti fundið sambærileg dæmi um að opinberu stjórnvaldi séu falin úrræði eða vald til aðgerða sem geta verið jafnafdrifarík og -íþyngjandi og hér um ræðir, hvort einhver slík ákvæði séu fyrir hendi annars staðar. Ég veit ekki betur en annars staðar þar sem opinber stjórnvöld hafa eftirlit með starfsemi einkaaðila, hvort sem er á sviði skattamála, vinnuverndarmála, umhverfismála eða öðru, þá sé alltaf forsendan fyrir því að hinir opinberu aðilar grípi til íþyngjandi úrræða sú að um sé að ræða lögbrot af hálfu þeirra aðila sem aðgerðirnar beinast að. Ég bið hv. viðskiptanefnd líka að skoða hvort hún finni einhvers staðar dæmi um jafnóljósa, almennt orðaða og opna heimild til afskipta og er fyrir hendi í þessu máli. Mér kann að sjást yfir eitthvað en ég veit ekki betur en annars staðar þar sem opinberu stjórnvaldi eru fengnar ríkar heimildir til afdrifaríkra og íþyngjandi afskipta af einkaaðilum séu gerðar skýrar kröfur um skýrleika þeirra heimilda sem stjórnvaldið hefur til aðgerða, þar á meðal um hvenær hægt sé að beita úrræðinu, hvaða mælikvarða eigi að leggja á aðstæður o.s.frv. Stjórnvöld eru bundin af lögum í störfum sínum og vegna þess að eftirlitsstjórnvöld eru hluti af stjórnsýslunni verða þau að sækja valdheimildir sínar til laga. Þetta á ekki síst við um íþyngjandi aðgerðir, aðgerðir sem geta raskað með einhverjum hætti réttindum annarra. Í þessu tilviki væri um að ræða eignarrétt þeirra sem eiga fyrirtækin. Hvarvetna, hvort sem er í skattalögum, lögum sem varða fjármálaeftirlit eða lögum sem varða umhverfismál eða hvar sem ég hef einhverja þekkingu á, eru gerðar mjög skýrar kröfur um að heimildir hinna opinberu aðila til afskipta þurfi að vera skýrar og afmarkaðar. En í þessu tilviki finnst mér ákvæðið hreint út sagt galopið. Það gefur samkeppnisyfirvöldum auðvitað mikið vald sem er vandmeðfarið og ef löggjafinn vildi ganga inn á þá braut yrði a.m.k. að forma valdheimildina, heimildina til afskipta með skýrari og skilmerkilegri hætti en gert er í þeim texta sem liggur fyrir þinginu.

Í mínum huga er sem sagt annars vegar spurningin um hvort eigi yfir höfuð að mæla fyrir um íþyngjandi aðgerðir gegn fyrirtækjum sem ekki er hægt að sanna nein brot á og hins vegar hvort sú heimild til afskipta sem hér er gert ráð fyrir standist einfaldlega þær grundvallarkröfur sem gerðar eru um alla löggjöf til íþyngjandi valdheimilda stjórnvalda.