139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum öll sammála um það í þessum sal að við viljum endurbyggja trúnað og traust í viðskiptalífi okkar og tengslum viðskiptalífs og stjórnmála. Atburðir síðustu daga sem tengjast sölunni á Icelandic Group eru því viss vonbrigði fyrir þann sem hér stendur og að ég held alla meðlimi viðskiptanefndar. Við stöndum í raun og veru í einkavæðingunni hinni síðari — og nú er ég, hæstv. forseti, ekki með það á hreinu hversu mikinn tíma ég á eftir.

(Forseti (ÁRJ): Forseti mun taka tímann á ræðu hv. þingmanns. Hann hefur a.m.k. eina og hálfa mínútu, sýnist mér.)

Takk. Hún telur upp núna.

(Forseti (ÁRJ): Já.)

Eykst því tíminn og ég held áfram.

Ég held hins vegar, frú forseti, að fréttir síðustu daga séu viss vonbrigði fyrir þá sem vilja byggja upp trúnað og traust á sölu fyrirtækjanna þegar þau færast úr opinberri eigu yfir til einkaaðila. Við verðum að tryggja að allir áhugasamir aðilar sitji við sama borð. Það er t.d. hægt að tryggja með því að það slíkt söluferli sé falið umsjá þriðja aðila eða að forsendur að baki sölunni séu skýrar.

Á vettvangi viðskiptanefndar settum við í samstarfi við Samtök fjármálafyrirtækja skýrar verklagsreglur um hvernig við mundum vilja sjá þessa hluti gerast þegar fyrirtækin færu út úr bönkunum en það er alveg ljóst að við þurfum að endurskoða þá stöðu í dag í ljósi nýjustu frétta. Þurfum við að setja skýran lagaramma um hvernig haga beri einkavæðingu? Erum við að tala um að við getum t.d. í viðskiptanefnd fengið skýrari upplýsingar um stöðu einstakra mála og menn séu þá á vettvangi þingnefndar bundnir trúnaði rétt eins og við höfum í utanríkismálanefnd þannig að við getum aflað upplýsinga án þess að farið sé á skjön við t.d. bankaleynd?

Ekki viljum við horfa á þá stöðu sem ríkti á árunum fyrir hrun þar sem afskipti stjórnmálamanna af einstaka ákvörðunum í bankakerfinu voru allt of ríkjandi. Við hljótum hins vegar að horfa til þess að við viljum hafa skýrari ramma um það hvernig menn haga þessum málum og um leið viljum við hafa aðgang að upplýsingum um hvað gengur á í viðskiptalífinu. Um það hljóta menn að vera sammála og ég tel að með lögum um Bankasýslu höfum við tryggt armslengdarstöðu (Forseti hringir.) framkvæmdarvaldsins frá þessum ákvörðunum en við þurfum kannski að horfa á skýrari lagaramma um einkavæðinguna.