139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Vestia-málið.

[17:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal talaði oft á árum áður um fé án hirðis og gerði það enn núna. Ég hef stundum velt fyrir mér hvort það hafi misskilist úti í samfélaginu þannig að menn ættu að hirða féð en ekki hirða um það því að það var svo sannarlega gert. (VigH: … núna?) Ég held að menn eigi að fara varlega í að dæma hluti sem nú eru í gangi og ætla allt hið versta í öllum tilvikum. Það er auðvelt að gera hlutina tortryggilega. Það er mikil tortryggni í samfélaginu. Það er mikilvægt að eyða henni, ég tek undir það, en það er heldur ekki ástæða til að ala á henni. (Gripið fram í.)

Það sem ég hef gert er að biðja um öll þau gögn, allan rökstuðning og allar upplýsingar sem hægt er að veita í þessu máli og árétta það nú með bréfi til Bankasýslunnar af því að við tökum það mjög alvarlega ef ekki er farið nákvæmlega að verklagsreglum. Það þarf þá að útskýra ef menn grípa til undanþáguheimilda sem vissulega eru til staðar og rökstyðja það eins og þær reglur gera ráð fyrir. Þann rökstuðning þurfum við að fá.

Það orkar að mínu mati tvímælis að tala hér um einkavæðingu. Hér er um að ræða einkafyrirtæki sem voru í fjárhagslegum erfiðleikum og viðskiptabanki viðkomandi fyrirtækja er að reyna að endurskipuleggja. (PHB: Ríkisbanki.) Já, vissulega í þessu tilviki banki í meirihlutaeigu ríkisins. (VigH: Já.) Menn mega auðvitað kalla það þá einkavæðingu ef þeir vilja. (VigH: Að sjálfsögðu.) (Gripið fram í: Þetta er einkavæðing.) Framtakssjóðurinn er í sjálfu sér ekki söluaðili í þeim viðræðum sem nú hafa staðið yfir, heldur er það fyrirtækið Icelandic sem er þá að selja út úr sínum efnahag tilteknar eignir erlendis. (GÞÞ: Er það þá orðið Icelandic sem er að …?) Það er að sjálfsögðu í eigu Framtakssjóðsins (Gripið fram í.) en þannig (GÞÞ: Hvernig má …?) — vegna þess að það er verið að selja eignir út úr því fyrirtæki en ekki fyrirtækið í heild. [Frammíköll í þingsal.]

Frú forseti. (Forseti hringir.) Getur þingmaður þagað smástund?

Ég vil hins vegar segja það hér alveg skýrt að þetta er ekki það opna söluferli eða tilboðsferli sem ég hefði kosið að Framtakssjóður hefði viðhaft. Það er það ekki. (PHB: Breyta því.) Það ber að leggja á það áherslu (Forseti hringir.) að í framtíðinni verði öðruvísi að þessum hlutum staðið. Við skulum síðan bíða og (Forseti hringir.) sjá hvort yfir höfuð verði um nokkra sölu að ræða og þá hafa menn tækifæri (Forseti hringir.) til að bæta ráð sitt. (VigH: Hver …?)