139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

afskriftir skulda hjá ríkisstofnunum.

[14:46]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það hefur verið minn skilningur á lögum að þegar um er að ræða sérlög þá ganga þau lengra en almenn lög. Sú löggjöf sem við höfum samþykkt annars vegar varðandi sértæka skuldaaðlögun og greiðsluaðlögun á Alþingi er að mínu mati almenn löggjöf en lögin hins vegar sem varða þær stofnanir sem við vorum að ræða, Byggðastofnun, Íbúðalánasjóð eða Lánasjóð íslenskra námsmanna, þar erum við að tala um sérlög.

Það virðist vera samdóma mat þeirra lögfræðinga sem hafa verið að skoða þetta hjá þessum opinberu stofnunum að þar sé ekki gert ráð fyrir heimildum til að fara í afskriftir af skuldum. Þetta er mjög alvarlegt og eins og hæstv. ráðherra nefndi í tilfelli Íbúðalánasjóðs erum við að tala um alla vega í kringum 10 þúsund heimili sem þurfa að fara hratt og vel í gegnum þau úrræði sem þó eru komin fram. Hjá Íbúðalánasjóði er líka fjöldi fyrirtækja, fjöldi verktaka sem hafa tekið lán og við vitum alveg hvernig staðan hefur verið í byggingabransanum á Íslandi, þar er allt í rúst, auðn einni. Það er því alveg ljóst að það þarf að fara í að gefa þessum stofnunum skýra lagaheimild til að afskrifa skuldir. Ég skil eiginlega ekki af hverju frumvörp þess efnis eða bandormur er ekki löngu kominn fram í þinginu.