139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

fundarstjórn.

[14:39]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil að gefnu tilefni taka fram að mér finnst fundarstjórn hæstv. forseta góð. Ég þakka fyrir að fast og vel hefur verið tekið á úrvinnslu af hálfu þingsins á hæstaréttardómi sem hér hefur verið til umræðu. Að sjálfsögðu er þar í mörg horn að líta og við þurfum að gefa okkur tíma, eins og maðurinn sagði, til að líta í þau öll og hugsa málið. Ég vænti þess að allir hv. þingmenn séu samtaka um það, einmitt í anda þess sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir ræddi hér undir þessum lið áðan. Það kemur nefnilega að því að við þurfum að standa við stóru orðin og þá skiptir miklu máli, eins og hér hefur komið fram, að við séum tilbúin til að rýna okkar eigin vinnu, þau mistök sem kunna að hafa verið gerð og leiðrétta þau. Ég á von á því að þingmenn allra flokka taki höndum saman um það.